Moska í Christchurch opnuð á ný

Múslimar yfirgefa moskuna eftir að hún var opnuð á nýjan …
Múslimar yfirgefa moskuna eftir að hún var opnuð á nýjan leik. AFP

Múslimar sneru í morgun aftur í aðalmoskuna í Christchurch á Nýja-Sjálandi í fyrsta sinn eftir fjöldamorðið sem var framið þar á dögunum.

Lögreglan lokaði moskunni Al Noor meðan á rannsókn málsins stóð og af öryggisástæðum eftir að byssumaður hóf fyrir rúmri viku skothríð á múslima sem höfðu safnast saman bæði þar og í minni mosku til bænahalds. Fimmtíu manns létu lífið.

Litlir hópar í senn fá núna að fara inn í moskuna til að byrja með. „Við leyfum 15 manns í einu að fara inn, bara til að reyna að koma hlutunum í eðlilegt horf aftur,“ sagði sjálfboðaliðinn Saiyad Hassen sem vissi ekki hvenær moskan myndi opna að fullu.

Skotárásin vakti mikinn óhug á Nýja-Sjálandi sem og víða um heiminn.

Fórnarlamba árásarinnar var minnst á Nýja-Sjálandi í gær, með bænahaldi múslima sem var útvarpað um allt landið. Eftir það var þeirra sem létust minnst með tveggja mínútna þögn. 

Faldi sig undir líkum í moskunni

Einn sá fyrsti til að fara inn í moskuna eftir að hún opnaði var Vohra Mohammad Huzef, sem var í moskunni þegar árásin var gerð. Hann sagði að tveir af félögum hans hafi verið drepnir og að honum hafi tekist að halda lífi með því að fela sig undir líkum.

„Ég fann þegar byssukúlurnar fóru í fólkið og ég fann þegar blóðið lak niður á mig af fólkinu sem var skotið,“ sagið Huzef.

„Allir vilja komast inn á nýjan leik til að biðja bænir og halda áfram. Þetta er miðpunktur samfélags okkar,“ sagði hann um moskuna.

Lögreglumaður stendur vörð fyrir utan moskuna.
Lögreglumaður stendur vörð fyrir utan moskuna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert