Neyðarsöfnun vegna ofsaflóða í Afríku

Meira en 3.200 ferkílómetrar lands í Mósambík eru undir vatni.
Meira en 3.200 ferkílómetrar lands í Mósambík eru undir vatni. AFP

Hamfarirnar í kjölfar fellibylsins Idai eru þær mestu sem dunið hafa á í sunnanverðri Afríku í áratugi og eru fleiri en 600 þegar taldir af. Löndin sem orðið hafa fyrir barðinu á þeim, Mósambík, Malaví og Zimbabwe, eru með þeim fátækustu í heimi.

Af þessum sökum hefur Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans sent útkall til allra landsfélaga þar sem óskað er eftir aðstoð, en eins og er er þörfin mest fyrir húsaskjól, mat, hreint drykkjarvatn og aðgengi að hreinlætis- og salernisaðstöðu.

Rauði krossinn á Íslandi hefur starfrækt verkefni á þessum svæðum í gegn um árin og hefur þegar sent einn sendifulltrúa á svæðið vegna flóðanna og er í viðbragðsstöðu með að senda fleiri.

Hægt er að styðja starf Rauða krossins í sunnanverðri Afríku með 2.900 króna framlagi með því að senda smáskilaboðin HJALP í símanúmerið 1900, eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert