Sýknaði lögreglumann sem skaut táning í bakið

Maður sést með taka þátt í mótmælagöngu í fyrra með …
Maður sést með taka þátt í mótmælagöngu í fyrra með mynd af Antwon Rose á bolnum sínum. AFP

Dómstóll í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hefur sýknað hvítan lögreglumann sem var ákærður fyrir að skjóta óvopnaðan svartan unglingspilt í bakið með þeim afleiðingum að hann lést. 

Lögreglumaðurinn Michael Rosfeld, sem er þrítugur, skaut hinn 17 ára gamla Antwon Rose þrívegis er hann reyndi að komast undan lögreglu í júní í fyrra. Rosfeld hafði aðeins starfað sem lögreglumaður formlega í 90 mínútur þegar þetta gerðist, að því er fram kemur á vef BBC.

Hann var ákærður fyrir manndráp í fyrra, en á fjórða degi réttarhalda í málinu sýknaði kviðdómur hann af öllum sakargiftum. Það tók kviðdóminn tæpar fjórar klukkustundir að komast að niðurstöðu. 

Lögmaður Rosfeld sagði við fjölmiðla að lögreglumaðurinn væri góður maður og hann vonaði að allir myndu að anda inn og út og halda síðan áfram með líf sitt. 

Fréttastöðin WPXI segir að skotið hafi verið á skrifstofur lögmannsins í gærkvöldi eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp. Engan sakaði. 

Lögmaður fjölskyldu Antwon Rose segir að móðir piltsins hefði í raun ekki átt von á annarri niðurstöðu í ljósi þess hvernig dómar hefðu fallið í svipuðum málum í Bandaríkjunum. 

Saksóknarinn í Pittsburgh, Stephen Zappala jr., sagðist vera ósammála niðurstöðunni. 

Um 100 mótmælendur eru sagðir hafa lokað vegum og lesið ljóð eftir Rose í kjölfar dómsins. Þeir eru einnig sagðir hafa hrópað aldur hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert