Efnuðust í skugga nasismans

Næstefnaðasta fjölskylda Þýskalands hyggst nú gera upp fortíð sína.
Næstefnaðasta fjölskylda Þýskalands hyggst nú gera upp fortíð sína. AFP

Næstauðugasta fjölskylda Þýskalands hefur heitið því að gefa tíu milljónir evra, andvirði 1,3 milljarða íslenskra króna, til góðgerðarmála eftir að hafa komist að því að forfeður hennar tengdust þýska nasistaflokknum og græddu á nauðungarvinnu fyrir tilstilli þýska ríkisins.

Albert Reimann stofnaði fyrirtæki fjölskyldunnar ásamt syni sínum. Faðirinn lést 1954 og sonurinn 1984. „Reimann eldri og Reimann yngri voru glæpamenn. Báðir frumkvöðlarnir eru látnir, en ættu báðir að vera í fangelsi,“ segir Peter Harf, talsmaður Reimann-fjölskyldunnar.

Fyrirtækið sem feðgarnir skildu eftir sig, JAB Holding, er sagt risi á alþjóðlegum mælikvarða og kemur að frægum vörumerkjum á borð við Clearasil, Calgon og Krispy Kreme. Auðæfi fjölskyldunnar eru metin á 33 milljarða evra, andvirði tæplega 4.500 milljarða íslenskra króna.

Nauðungarvinna var mikilvægur þáttur í framleiðslu þýskra hergagna.
Nauðungarvinna var mikilvægur þáttur í framleiðslu þýskra hergagna. Ljósmynd/Bundesarchiv

Harf segir fjölskylduna hafa byrjað að skoða fortíð hennar upp úr aldamótum og að ráðinn hafi verið sagnfræðingur árið 2014 til þess að rannsaka tengslin við nasisma.

Fyrirætlanir Reimann-fjölskyldunnar miða að því að varpa ljósi á alla þætti forsögunnar í bók sem sagnfræðingurinn Paul Erker við Munchen-háskóla ritar, að sögn Harf.

Fram kemur í Bild am Sonntag að Reimann eldri hafi verið styrktaraðili SS sveita Adolfs Hitlers allt frá árinu 1931. Fyrirtæki hans var meðal annast tilgreint sem undirstöðufyrirtæki árið 1941 af þýska hernum, þar sem það framleiddi varning fyrir Wehrmact og hergagnaiðnaðinn.

Árið 1943 störfuðu 175 einstaklingar í nauðungarvinnu hjá fyrirtækinu.

Fyrsta skref er að gefa tíu milljónir evra, að sögn Harf sem jafnframt segir: „Við viljum gera meira.“

Ljósmynd/Bundesarchiv
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert