Enn eru 1.000 farþegar um borð

Norska skemmtiferðaskipið Viking Sky í gær.
Norska skemmtiferðaskipið Viking Sky í gær. AFP

Búið er að koma um 400 farþegum í land sem voru um borð í norska skemmtiferðaskipinu Viking Sky sem landi í vandræðum undan Noregsströnd síðdegis í gær. Um 1.000 farþegar eru enn um borð í skipinu. Björgunaraðgerðir stóðu yfir í alla nótt og halda þær áfram í dag.

Skipið varð aflvana í gær en það tókst svo að gangsetja þrjár af fimm aflvélum skipsins sem siglir nú á tveggja til þriggja hnúta hraða. Skipið stefnir til Molde í Noregi og nýtur aðstoðar björgunar- og dráttarbáta.

Aðstæður hafa verið björgunarsveitum erfiðar, mjög hvasst og mikill öldugangur. Eirik Walle, sem stýrir björgunaraðgerðunum, segir að það sé enginn hægðarleikur að snúa svo stóru skipi við þessar aðstæður. 

Þrjár þyrlur hafa í alla nótt ferjað farþega frá borði og í land. Rétt fyrir kl. 6 að norskum tíma var búið að koma 338 manns í öruggt skjól.

Walle segir að verið sé að meta aðstæður, en þar til annað verður ákveðið munu þyrlurnar halda áfram að sækja farþega og fara með þá í land.

Það var um kl. 14 að staðartíma þegar skipið lenti í vanda í gær þegar það varð aflvana. Skipstjórinn sendi þá út neyðarkall við Hustadvika í Mæri og Raumsdal þegar skipið hóf að reka stjórnlaust í stórsjó.

Það tókst að ræsa eina vél kl. 18:30 að staðartíma í gær og þá var raunveruleg hætta á að skipið ræki á land. Um kl. 23 í gærkvöldi voru þrjár vélar komnar í gang, og þá gekk skipið loks aftur fyrir eigin vélarafli. 

Þrír farþegar eru alvarlega slasaðir. Einn var sendur á sjúkrahús í Björgvin og tveir til Kristiansund. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert