Ráðherrar lýsa yfir stuðningi við May

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breskir ráðherrar segja ekkert hæft í því að ráðamenn í ríkisstjórn Theresu May vinni nú að því að koma forsætisráðherranum frá völdum. Stephen Barclay, Brexit-ráðherra ríkisstjórnarinnar, segir að May sé við stjórnvölinn og njóti stuðnings.

David Lidington, sem hefur verið nefndur á nafn sem eftirmaður May, heldur því fram að forsætisráðherrann geti treyst á hans stuðning. Philip Hammond, fjármálaráðherra landsins, hefur einnig vísað slíkum fréttum á bug.

David Lidington hefur verið nefndur á nafn sem eftirmaður May.
David Lidington hefur verið nefndur á nafn sem eftirmaður May. AFP

Barcley sagði í samtali við BBC, að ef breskir þingmenn greiði atkvæði um Brexit-leið sem samræmist ekki vilja ríkisstjórnarinnar séu auknar líkur á því að boðað verði til nýrra þingkosninga í Bretlandi.

Breskir þingmenn munu fá tækifæri til að taka þátt í leiðbeinandi atkvæðgreiðslu um aðra valmöguleika en þá sem May hefur lagt fram í tengslum við Brexit, að því er segir á vef BBC. Barcley tekur aftur á móti fram að sú atkvæðagreiðsla sé ekki bindandi. 

Stephen Barclay.
Stephen Barclay. AFP

Fram hefur komið í breskum dagblöðum, að ráðherrar í ríkisstjórn May hafi í hyggju að snúast gegn May og fá inn annan mann í hennar stað sem myndi gegna embætti forsætisráðherra tímabundið, eða þar til nýtt leiðtogakjör hefur farið fram síðar á þessu ári. 

Því hefur verið haldið fram að þingmenn úr röðum Íhaldsflokksins myndu með semingi styðja Brexit-áætlun May séu þeir fullvissir um að hún verði ekki við stjórnvölinn þegar kemur að næsta áfanga samningalotunnar við Evrópusambandið. Ekki eru þó allir á einu máli um hver eigi að taka við forsætisráðuneytinu af May.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert