Ákærður fyrir kynferðisofbeldi í garð nemenda

Joaquin Benitez, lengst til vinstri, er sakaður um að hafa …
Joaquin Benitez, lengst til vinstri, er sakaður um að hafa beitt fjóra nemenda sinna kynferðislegu ofbeldi. Réttarhöld í máli hans hófust í Barcelona í dag. AFP

Réttarhöld hófust í dag í Barcelona á Spáni yfir fyrrverandi leikfimikennara í kaþólskum skóla sem ákærður er fyrir að hafa beitt nemendur kynferðisofbeldi, en ásakanir í garð embættismanna kirkjunnar hafa undanfarin misseri skekið kaþólsku kirkjuna þar í landi líkt og víða annars staðar.

Kennarinn Joaquin Benitez, sem kenndi í tæpa þrjá áratugi í Marist-skólanum í Barcelona, var með skíðahettu á höfði er hann mætti í dómsal í dag. Saksóknari hefur farið fram á 22 ára dóm gegn Benitez sem er ákærður fyrir kynferðislega misnotkun á fjórum fyrrverandi nemendum skólans.

Þrettán nemendur til viðbótar ásökuðu Benitez um að hafa beitt þá kynferðislegu ofbeldi, en mál þeirra töldust fyrnd.

„Við vonum  að réttlætið nái fram að ganga, jafnvel þó að dómstóllinn muni ekki geta bætt skaðann sem fórnarlömbin urðu fyrir,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Manuel Barbero, föður eins fórnarlambanna.

Það var fyrst árið 2016 sem greint var frá ásökunum í garð Benitez og fylgdi fjöldi ásakana á hendur honum og öðrum kennurum við skólann í kjölfarið.  

Í alls bárust 43 ásakanir gegn 12 kennurum og öðrum starfsmönnum skólans. Einungis verður þó réttað yfir Benitez og einum starfsmanna mötuneytis skólans þar sem aðrar ásakanir töldust fyrndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert