Breska þingið tekur ráðin af May

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Breska þingið samþykkti í kvöld, þvert á vilja ríkisstjórnarinnar, að greiða atkvæði um mögulegar leiðir til að finna lausn á fyrirhugaðri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. 329 þingmenn kusu að fara þessa leið en 302 voru á móti. Segja má því að þingið hafi tekið ráðin af Theresu May, forsætisráðherra Bretlands.  

Þrír ráðherrar í ríkisstjórn May sögðu af sér til að kjósa með tillögunni, þeirra á meðal er Richard Harrington viðskiptaráðherra. 

Atkvæðagreiðsla um tillögurnar sem þingmenn samþykktu að greiða atkvæði um í kvöld er fyrirhuguð á miðvikudag. Meðal tillagna sem greidd verða atkvæði um er „vægari útganga“ og önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit.

May reyndi í dag að fá meirihluta þingheims til að samþykkja að greiða atkvæði um tillögur ríkisstjórnarinnar á ýmsum úrlausnarmálum tengdum Brexit, en án árangurs. May sagði að með yfirtöku þingmanna á dagskrárvaldi neðri málstofu breska þingsins sé verið að setja „illa séð fordæmi“.

Fyr­ir­hugað er að út­ganga Bret­lands úr ESB (Brex­it) verði á föstu­dag­inn en May hef­ur óskað eft­ir því að fresta henni. ESB hef­ur samþykkt frest­un til 12. apríl liggi út­göngu­samn­ing­ur ekki fyr­ir en 22. maí verði út­göngu­samn­ing­ur Mays samþykkt­ur af breska þing­inu í þriðju til­raun komi til henn­ar.

Hér má fylgjast með beinni textalýsingu BBC frá atburðarás kvöldsins á breska þinginu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert