Femínisti í stað nethrellis

Marie Kirschen.
Marie Kirschen. Twitter

Ritstjóri franska tímaritsins Les Inrockuptibles hefur verið rekinn úr starfi fyrir neteinelti og Marie Kirschen ráðin í hans stað. Hún stofnaði meðal annars tímaritið Well Well Well og hefur verið áberandi í baráttunni fyrir réttindum LGBT í Frakklandi.

Samkvæmt tilkynningu frá popptímaritinu Les Inrockuptibles var ritstjórinn David Doucet rekinn úr starfi ásamt öðrum blaðamanni sem einnig hafði tekið þátt í samfélagsmiðlaspjalli „strákaklúbbsins“ la Ligue du LOL en þar var einkum verið að níða konur í hópi fjölmiðlafólks og femínista. 

Samtök femínista í hópi blaðamanna, Prenons la Une, fagna mjög ráðningu Kirschen og segja ráðninguna frábært merki um að tímaritið taki femínisma alvarlega. 

Kirschen hefur meðal annars unnið fyrir tímarit samkynhneigðra, Têtu, og Têtue.com, auk Libération.fr.34. 

Nokkrir blaðamenn og almannatenglar sem voru í la Ligue du LOL hafa annaðhvort verið reknir úr starfi eða ákveðið að hætta sjálfir eftir að fréttir bárust af umræðunni inni á síðunni. Alls voru 30 karlar í hópnum og segir ráðherra samskiptamála, Mounir Mahjoubi, þá vera aumingja. 

Frétt Le Monde

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert