Telja að þingið sé að reyna að stöðva Brexit

AFP

Meirihluti Breta telur samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar að breska þingið sé staðráðið í að koma í veg fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) í andstöðu við vilja meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni sumarið 2016.

Fram kemur á fréttavef Daily Telgraph að 55% Breta séu þessarar skoðunar samkvæmt skoðanakönnuninni, sem gerð var af fyrirtækinu ComRes, og náði til um tvö þúsund Breta. Þar af voru 38% þeirra sem greiddu atkvæði með því að vera áfram í Evrópusambandinu 2016 og 87% þeirra sem vildu ganga úr sambandinu. Hins vegar segjast færri en 19% vera ósammála því að þingið sé að reyna að stöðva útgönguna.

Meirihluti Breta er einnig þeirrar skoðunar samkvæmt könnuninni, eða 54%, að viðleitni þingmanna sem vilja að Bretland verði áfram innan Evrópusambandsins og annarra sem tilheyra stjórnkerfi landsins til þess að stöðva útgönguna úr sambandinu, hefði skaðað samningsstöðu Breta. Hins vegar segjast 24% ósammála því.

Rúmlega 40% telja að í stað þess að fresta útgöngunni úr Evrópusambandinu ættu Bretar að yfirgefa sambandið án útgöngusamnings 29. mars, en 28% eru ósammála því. Fimmtungur kjósenda segist aldrei ætla að kjósa aftur ef þingmenn koma í veg fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert