Vill afsökunarbeiði frá kóngi og páfa

Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó (t.h.), og Pedro Sanchez, …
Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó (t.h.), og Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar (t.v.), í Mexíkóheimsókn þess síðarnefnda í janúar á þessu ári. AFP

Andrés Manuel López Obrador, forseti Mexíkó, hefur sent Filippusi VI Spánarkonungi og Frans páfa bréf þar sem hann hvetur þá til að biðjast afsökunar á þeim mannréttindabrotum sem frumbyggjar Mexíkó hafi sætt er Spánverjar tóku þar land fyrir 500 árum.

Sagði López Obrador fjöldamorð hafa verið framin á frumbyggjum Mexíkó og hvatti hann til viðurkenningar á því ofbeldi sem fólkið hefði orðið yfir. BBC segir spænsk yfirvöld hafa hafnað beiðninni og þess í stað hvatt til þess að málið verði skoðað með „uppbyggilegum hætti“.

Landsvæðið sem Spánverjar tóku landnámi og er Mexíkó í dag var undir spænskri stjórn í um 300 ár, áður en það hlaut sjálfstæði snemma á 19. öld.  Spánn var kaþólskt ríki á tímum landvinninganna og leit á það sem hlutverk sitt að breiða út kristna trú í ríkjum Ameríku.

López Obrado er fyrsti vinstrimaðurinn sem nær forsetakjöri í Mexíkó í ein sjötíu ár og hefur hann haldið á lofti allróttækri stefnu frá því hann settist á forsetastól í desember á síðasta ári. Hann hefur þannig m.a. heitið því að taka á spillingu, draga úr misskiptingu auðs og losa milljónir Mexíkóa úr fátæktargildrunni.

Í gær birti hann svo myndband af sér á Twitter þar sem hann var staddur í rústum sögulegs svæðis Comacalco, þar sem hann sést við hlið forsetafrúarinnar, Beatriz Gutierrez. „Ég hef sent bréf til Spánarkonungs og annað til páfa, þannig að hægt sé að viðurkenna ofbeldið og biðja frumbyggja Mexíkó afsökunar á brotum á því sem við í dag köllum mannréttindi,“ sagði forsetinn.

„Þetta var blóðbað [...] Þessir svonefndu landvinningar voru unnir með sverði og krossi. Þeir byggðu kirkjur ofan á hofum. Það er orðið tímabært að ná sáttum, en fyrst verða þeir að biðjast afsökunar.“

Brasilía er eina Ameríkuríkið þar sem kaþólikkar eru fleiri en í Mexíkó. Rúmur fimmtungur íbúa Mexíkó telur sig komna af frumbyggjum, en mun fleiri íbúar landsins eru hins vegar af spænsku bergi brotnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert