Fór dýrmætur tími í súginn?

Talið er að það taki mánuði að hreinsa Notre Dame …
Talið er að það taki mánuði að hreinsa Notre Dame eftir að þak kirkjunnar og turnspíra eyðilögðust í eldinum sem kviknaði á mánudag. Það gæti einnig tekið mánuði að meta skemmdir sem urðu á listmunum í kirkjunni. AFP

Villa í hugbúnaði er talin hafa orðið til þess að öryggisverðir fóru á rangan stað í dómkirkjunni Notre Dame í París á mánudag þegar tölvukerfi hennar varaði fyrst við eldi í byggingunni, að sögn franskra fjölmiðla í gær. Þeir segja að dýrmætar mínútur hafi þar með farið í súginn.

Tölvukerfið varaði við eldi í kirkjunni klukkan 18.20 að staðartíma en öryggisverðirnir fundu engan eld og töldu að viðvörunin hefði verið tilefnislaus, að því er franska blaðið Le Parisien hefur eftir heimildarmönnum sínum. 23 mínútum síðar, klukkan 18.43, fór viðvörunarkerfið í gang aftur. Öryggisverðirnir hringdu ekki í slökkviliðið fyrr en þeir sáu um þriggja metra langar eldtungur í neðsta hluta turnspírunnar sem eyðilagðist í eldinum. Le Parisien segir að villa í hugbúnaði hafi valdið því að öryggisverðirnir leituðu að eldinum á röngum stað í byggingunni.

Endurreist innan fimm ára?

Viðarþak kirkjunnar eyðilagðist í brunanum, auk turnspírunnar, en slökkviliðinu tókst að bjarga meginbyggingunni og tveimur turnum hennar. Laurent Nuñez, aðstoðarinnanríkisráðherra Frakklands, hefur sagt að aðeins hafi munað um 15-30 mínútum að slökkviliðið hafi ekki getað bjargað dómkirkjunni.

Fyrirtæki, einstaklingar og borgarstjórn Parísar höfðu í gær lofað fjárframlögum að andvirði nær milljarðs evra, sem svarar 135 milljörðum króna, til að endurreisa Notre Dame eftir brunann. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur lofað því að dómkirkjan verði endurreist innan fimm ára. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert