Mótmælendur beina sjónum að Heathrow

Sajid Javid, innanríkisráðherra Bretlands, hefur hvatt lögreglu til að beita fullu valdi laganna gegn mótmælendum sem valdið hafa miklum truflunum í London undanfarið til að vekja athygli á loftslagsbreytingunum.

Að mót­mæl­un­um standa grasrót­ar­sam­tök sem kalla sig Upp­reisn gegn út­rým­ingu (Ext­incti­on Re­belli­on) og segir Reuters-fréttaveitan þau m.a. hafa tilkynnt að þau muni herða aðgerðir sínar með því að gera Heathrow-flugvöllinn að skotmarki sínu á morgun, föstudaginn langa.

Guardian segir Javid, sem talinn er líklegur til að gefa kost á sér í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins, hafa í dag birt röð Twitter-færslna þar sem hann fordæmir „alla þá mótmælendur sem stíga út fyrir ramma laganna.“ Þá hvatti hann lögreglu „til að taka hart á“ mótmælendum sem „með verulegum hætti trufli aðra“.

„Undanfarna daga hefur fólk sem er að reyna að hafa í sig og á verið ófært um að ferðast til vinnu og fyrirtæki hafa einnig sætt truflunum,“ sagði Javid í kjölfar fundar með Lundúnalögreglunni. „Sjúkrabílar hafa átt í erfiðleikum með að komast leiðar sinnar eftir gatnakerfinu og mótmælendur hafa sett aukinn þrýsting á lögreglumenn sem hafa þann starfa að leysa glæpi og vernda almenning. „Látið mig vera alveg skýran hvað þetta varðar: Ég fordæmi fyllilega hverja þá mótmælendur sem stíga út fyrir ramma laganna. Þeir hafa engan rétt á að valda milljónum manna sem eru að reyna að sinna sínu daglega lífi vanlíðan. Ólögleg hegðun verður ekki liðin.“

Hundruð hafa verið handteknir og meira en þúsund lögreglumenn hafa verið að störfum í tengslum við mótmælin sem nú eru á sínum fjórða sólarhring. Mót­mæl­end­ur hafa reynt að loka um­ferðargöt­um og brúm, með aðgerðum þar sem hvatt er til borgaralegrar óhlýðni og hafa sam­göng­ur um hluta höfuðborg­ar­inn­ar lam­ast. Segjast mótmælendur ekki hætta fyrr en stjórn­völd hlusti á kröf­ur þeirra.  

„Við erum að nálgast þá stund þar sem enginn getur sagt að hann hafi ekki vitað af loftslagsbreytingunum. Þegar David Attenborough er farinn að segja satt, þá hafa stjórnmálamenn enga ástæðu til að bregðast ekki við núna,“ hefur Guardian eftir talsmanni hópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert