Norður-Kóreumenn prófuðu nýja eldflaug

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu segjast hafa prófað nýja fjarstýrða eldflaug, en um er að ræða fyrstu vopnatilraunir Norður-Kóreumanna sem heyrst hefur af frá því að viðræðum leiðtogans Kim Jong-un við Donald Trump Bandaríkjaforseta lauk án niðurstöðu í febrúar síðastliðnum.

Greint var frá tilraununum með nýja vopnið í ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu, KCNA, en samkvæmt því sem BBC segir í frétt sinni um málið telja sérfræðingar í varnarmálum ólíklegt að um sé að ræða tilraunir með langdrægt flugskeyti, sem Bandaríkjamenn hafa álitið sem ógn við öryggi sitt.

KCNA greindi frá því að eldflauginni hefði verið skotið á ýmsan hátt og á mismunandi skotmörk og það telja sérfræðingar benda til þess að um sé að ræða vopn sem hægt sé að skjóta af stað á landi, úr lofti eða af vatni, með ýmist skipum eða kafbátum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert