Sandur af seðlum heima hjá Bashir

Omar al-Bashir skorti ekki fé, ef marka má fréttir dagsins.
Omar al-Bashir skorti ekki fé, ef marka má fréttir dagsins. AFP

Gríðarlegt magn reiðufjár hefur fundist á heimili Omar al-Bashir, fyrrverandi forseta Súdans, sem var nýverið steypt af stóli. Saksóknarar segja að rannsókn sé hafin og verið sé að kanna hvort Bashir hafi verið viðriðinn peningaþvætti.

Lögreglumenn fundu evrur, dollara og súdönsk pund, en heildarfjárhæðin nemur um 130 milljónum dala, sem samsvarar um 15,5 milljörðum króna. 

Bashir var settur í stofufangelsi í kjölfar mótmæla sem höfðu staðið yfir mánuðum saman sem leiddu til þess að honum var vikið úr embætti. 

Fram kemur á vef BBC, að talið sé að Bashir sé nú vistaður í Kobar-öryggisfangelsinu. 

Reuters hefur eftir heimildarmanni lögreglan hafi fundið margar skjalatöskur sem hafi verið fullar af peningum. Nánar tiltekið hafi þar verið að finna 351.000 dali, sex milljónir evra og fimm milljarðar súdanskra punda. Heimildarmaðurinn, sem hefur tengsl við dómsmálaráðuneyti landsins, segir að Bashir verði yfirheyrður í Kobar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert