Ekkert að því að taka við upplýsingum frá Rússum

Rudy Giuliani.
Rudy Giuliani. AFP

Rudy Giuliani, aðallögfræðingur Trumps Bandaríkjaforseta, var harðorður í garð rannsóknarskýrslu Roberts Mueller sem hann segir að sé full a „rógburði, lygum og rangfærslum“. Hann segir ennfremur að það sé ekkert að því að taka við upplýsingum frá Rússum sem tölvuþrjótar komust upphaflega yfir.

Giuliani, sem er fyrrverandi borgarstjóri New York, lét ummælin falla í spjallþætti hjá sjónvarpsstöðinni CNN í dag þar sem hann tók til varna fyrir Trump. 

Hann gagnrýndi einnig öldungadeildarþingmanninn Mitt Romney harðlega, en Romney er fyrrverandi forsetaframbjóðandi repúblikana. Romney lét hafa eftir sér að honum væri misboðið yfir því sem væri að finna í skýrslu Muellers og að hann væri yfir sig hneykslaður að framboð Trumps hafi tekið fagnandi við aðstoð frá Rússum. 

„Þvílíkur hræsnari,“ sagði Giuliani um Romney og bætti því svo við að hvaða frambjóðandi sem er í Bandaríkjunum hefði tekið við þessum upplýsingum fegins hendi. Giuliani er þarna að vísa til tölvupósta sem rússneskir tölvuþrjótar komust yfir og uppljóstrunarsíðan WikiLeaks dreifði á vefnum árið 2016 í þeim tilgangi að skaða framboð Hillary Clintons, sem var forsetaframbjóðandi demókrata og aðalkeppinautur Trumps. 

„Hver heldur því svo fram að þetta sé svo ólöglegt,“ spurði Giuliani. „Verða upplýsingarnar svo rangar? Upplýsingunum sem var safnað saman og dreift; öll dagblöð birtu þetta.“

Trump hvatt bæði Rússa og WikiLeaks að birta upplýsingarnar. Þá áttu hans nánustu samstarfsmenn, þar á meðal sonur hans og tengdasonur, fundi með rússneskum embættismönnum sem höfðu lofað að koma á framfæri skaðlegum upplýsingum um Clinton. 

„Það er ekkert að því að taka við upplýsingum frá Rússum. Það fer eftir því hvaðan þær upplýsingar koma,“ sagði Giuliani. Hann bætti hins vegar við að sem lögmaður hefði hann ráðlegt Trump gegn því að taka við slíkum upplýsingum. 

„Þetta varð ekki að alþjóðlegu hneykslismáli vegna siðleysis. Þetta varð að alþjóðlegu hneykslismáli af því að forsetinn var ranglega sakaður um að brjóta lögin,“ sagði Giuliani ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert