Rússar sjá von í nýjum Úkraínuforseta

Selenskí kyssir eiginkonu sína þegar fyrstu útgönguspár gáfu sterklega til …
Selenskí kyssir eiginkonu sína þegar fyrstu útgönguspár gáfu sterklega til kynna að hann yrði forseti. Hann er grínisti að upplagi. AFP

Úkraínumenn taka skrefið inn í nýja tíma með nýjum forseta, Volodimír Selenskí, sem hlaut 73% atkvæða í forsetakosningunum sem lauk í dag. Samkvæmt fréttaskýrendum AFP hlaut hann þessa metkosningu með því að lofa breytingum en nákvæmlega hvernig hann ætlaði að bera sig að þeim lá ekki jafnvel fyrir og loforðin sjálf.

Meðal kosningaloforða Selenskí var að bæta samskiptin við Rússa. Átök hafa verið á milli landanna í austurhluta Úkraínu síðan Rússar lýstu yfir yfirráðum sínum á Krímskaga. Nú í kjölfar niðurstöðu kosninganna hafa Rússar þegar sagst sjá flöt á bættum samskiptum.

Forsætisráðherra Rússlands sagði að fyrir hendi væri „möguleiki“ á að bæta tengslin. „Og hvað þarf til? Heiðarleika. Og raunsæja og ábyrga nálgun,“ sagði hann. Vladimír Pútín hefur ekki tjáð sig en sagt var í aðdraganda kosninganna að Selenskí myndi reynast erfitt að standa uppi í hárinu á honum.

Selenskí lofaði líka bættum tengslum við Evrópu. Emmanuel Macron er búinn að hringja í Selenskí til að óska honum til hamingju. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gert slíkt hið sama. Loks sendu Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sameiginlegt bréf til Selenskí.

Selenskí lagði að velli fyrrverandi forseta Úkraínu Petró Porosjenkó í þessum kosningum, sem viðmælendur AFP sögðu hafa verið heiðarlegustu kosningar í sögu Úkraínu. Porosjenkó var um leið lofaður fyrir að gangast við ósigrinum þegar hann lá fyrir. Hann hefur sömuleiðis sagt sig viljugan til að hjálpa Selenskí fyrstu dagana að átta sig á starfinu. Þá kveðst Porosjenkó ekki vera hættur í stjórnmálum þrátt fyrir þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert