Óvænt úrslit í Ástralíu

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, vann sigur, flestum að óvörum.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, vann sigur, flestum að óvörum. AFP

Bill Shorten, leiðtogi Verkamannaflokksins í Ástralíu, hefur viðurkennt ósigur í þingkosningunum þar í landi. Niðurstaðan hefur komið mörgum á óvart en kannanir bentu til þess að Verkamannaflokkurinn myndi standa uppi sem sigurvegari kosninganna. 

Það lítur því út fyrir að núverandi samsteypustjórn mið-hægriflokka, sem Scott Morrison, forsætisráðherra landsins, leiðir, muni verða áfram við völd. Það liggur hins vegar ekki fyrir á þessari stundu hvort honum takist að mynda meirihlutastjórn, að því er segir á vef BBC.

Bill Shorten hefur viðurkennt ósigur og ætlar að hætta sem …
Bill Shorten hefur viðurkennt ósigur og ætlar að hætta sem leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP

Útgönguspár bentu til þess að Verkamannaflokkurinn myndi vinnan nauman sigur í fyrsta sinn í sex ár. 

Endanleg niðurstaða mun líklega ekki liggja fyrir fyrr en í kvöld eða á morgun, en búið er að telja um 70% atkvæða. Samkvæmt því er samsteypustjórnin með um 74 sæti á þnginu, en til að ná meirihluta þarf að ná 76 sætum. Verkamannaflokkurinn er með um 65 sæti. 

Shorten var dapur í bragði þegar hann viðurkenndi ósigurinn. Hann sagði að hann myndi segja af sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins.

„Það er augljóst að Verkamannaflokkurinn getur ekki myndað næstu ríkisstjórn,“ sagði Shorten við stuðningsmenn sína sem áttu erfitt með að trúa eigin augum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert