Hælisleitendum synjað um matvæli

Gaddavír og eftirlitsturn á landamærum Serbíu og Ungverjalands.
Gaddavír og eftirlitsturn á landamærum Serbíu og Ungverjalands. AFP

Mannréttindastjóri Evrópuráðsins hefur sakað stjórnvöld í Ungverjalandi um víðtæk brot á mannréttindum. Segir BBC fram koma í skýrslu mannréttindastjórans, Dunja Mijatovic, að stefna stjórnarinnar í garð innflytjenda ali á „kynþáttahatri, ótta og hatri meðal íbúa.“

Sagði Mijatovik fjölda hælisleitenda sem haldið er á svonefndum biðsvæðum vera synjað um matvæli. Hvatti hún til þess að slíku verði hætt samstundis.

Ungversk yfirvöld hafa hins vegar varið gjörðir sínar og hafna hlutum skýrslunnar.

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, og Fidesz flokkur hans hafa ítrekað lent í deilum við mannréttindasamtök vegna stefnu sinnar í garð innflytjenda og hælisleitenda.

47 ríki eiga sæti í Evrópuráðinu, en bæði ráðið og Evrópusambandið hafa gripið til aðgerða gegn Ungverjalandi fyrir gera það glæpsamlegt að aðstoða hælisleitendur.

„Stöðvði innflytjendur!“ stendur á þessu skilti sem Fidesz flokkur forsætisráðherrans …
„Stöðvði innflytjendur!“ stendur á þessu skilti sem Fidesz flokkur forsætisráðherrans hefur komið upp í bænum ungverska bænum Csorna. AFP

Hvatti Mijatovic til umsvifamikilla breytinga á þeirri meðferð sem hælisleitendur sæti í Ungverjalandi og sagði hún „krísu-ástandið“ óréttlætanlegt. Harðlínustefna stjórnvalda hefði í för með sér að hælisleitendum væri eingöngu hleypt inn á tvö svæði í landinu og þar ættu þeir ekki rétt á lagalegri aðstoð og væri jafnvel stundum neitað um mat.

Stefna ungverska stjórnvalda hefur, að því er fram kemur í skýrslunni, leitt til kerfisbundinnar höfnunar á umsóknum um hæli í landinu. „Þá hef ég líka miklar áhyggjur af ítrekuðum fréttum af óhóflegu lögregluofbeldi þegar erlendir ríkisborgarar eru fluttir á brott með valdi,“ sagði Mijatovic.

Í yfirlýsingu sem utanríkisráðuneyti Ungverjalands sendi frá sér vegna skýrslunnar er henni tekið fagnandi og sagt að í henni sé að finna „nokkrar gildar athugasemdir“. Fjölda annarra er hins vegar hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert