Faðirinn ákærður í Varhaug-máli

Lögreglumenn á vettvangi skammt frá fundarstað líks Sunnivu Ødegård í …
Lögreglumenn á vettvangi skammt frá fundarstað líks Sunnivu Ødegård í Varhaug að morgni 30. júlí í fyrra. Ljósmynd/Marius Vervik/VG

Annar maður hefur nú verið ákærður í hinu óhugnanlega máli norsku stúlkunnar Sunnivu Ødegård, sem var aðeins 13 ára gömul þegar henni var ráðinn bani í smábænum Varhaug í Rogaland á vesturströnd Noregs aðfaranótt 30. júlí í fyrra.

Nýi sakborningurinn í málinu er faðir þess 18 ára sem ákærður er fyrir sjálfan verknaðinn en rekstur málsins fer nú fram fyrir Héraðsdómi Jæren í Sandnes. Er föðurnum gefið að sök brot gegn 1. málsgrein 160. greinar norsku hegningarlaganna sem fjallar um það er áhrif eru höfð á sönnunargögn í sakamálum.

Þetta gerðist á mánudaginn og hefur föðurnum nú verið útvegaður verjandi, en aðeins örfáum klukkustundum áður sat hann í vitnastúkunni og lýsti því fyrir Ninu Grande saksóknara hvernig drengurinn hefði staðið með tárin í augunum fyrir framan hann eftir verknaðinn og verið við það að brotna saman.

Talinn hafa þvegið blóðugan hamar

Nú hefur rannsókn lögreglu hins vegar leitt í ljós grun um að faðirinn hafi átt við sönnunargögn málsins, þvegið blóðugan hamar, sem staðfest hefur verið að er morðvopnið, auk þess að henda hettupeysu af syninum í ruslagám og þvo önnur föt af honum.

Þetta staðfesti Oddbjørn Søreide, héraðssaksóknari í Rogaland, við norska ríkisútvarpið NRK í fyrradag. Tjáði Søreide ríkisútvarpinu efni ákærunnar en kaus að tjá sig ekki frekar um málið fyrir utan að hann sagði ákæruna hafa verið birta föðurnum.

Verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi fyrir að spilla sönnunargögnum, en faðirinn gaf áður þá skýringu í vitnastúkunni að hann hefði trúað þeirri sögu sonarins að hann hefði lent í átökum við kunningja sinn. Sagði hann svo mikið blóð hafa verið á buxum sonar síns að hann hefði þegar tekið til við að skola þær með garðslöngu, en minntist þá ekki á hamarinn sem hann er nú grunaður um að hafa þvegið og peysuna sem hann kastaði í ruslagám.

Aftenposten

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert