Trump verr undirbúinn en Pútín

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti takast í hendur …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti takast í hendur við upphaf fundar síns í Helsinki í fyrra. AFP

Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa verið verr undirbúinn en Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrir þeirra fyrsta fund.

Tillerson greindi þingmönnum frá þessu og að vanda svaraði forsetinn fyrir sig á Twitter. Þar sagði hann Tillerson hafa skáldað þetta upp, hann væri „grjótheimskur“, illa undirbúinn og illa til þess fallinn að vera utanríkisráðherra:

Trump rak Tillerson úr embætti í mars í fyrra, og segir Washington Post hann hafa látið þessi orð falla um fund forsetanna í Hamborg  árið 2017, á fundi með þingnefnd á þriðjudag.

„Við eyddum miklum tíma í að ræða um það hvernig Pútín greip hvert tækifæri til að ýta áfram sínum málum,“ hefur blaðið eftir einum starfsmanni nefndarinnar. „Það var misræmi í undirbúningi sem olli ójafnvægi.“

Trump fundaði með Pútín í tengslum við leiðtogafund G20-ríkjanna í júlí 2017 og hafði áður sætt harðri gagnrýni fyrir að vera tregur til að gagnrýna Pútín vegna afskipta rússneskra ráðamanna af bandarísku forsetakosningunum árið á undan.

Að fundi loknum sagði Trump þeim Pútín hafa komið „mjög, mjög vel saman“.

Í twitterfærslu sinni í dag hafnaði forsetinn því að Pútín hefði verið betur undirbúinn. „Ég held að Pútín væri þessu ekki sammála. Sjáið bara hvernig Bandaríkin standa sig!“

Tillerson var viðstaddur viðræður leiðtoganna í Hamborg. Upphaflega átti aðeins að vera um stuttan fund að ræða, en úr urðu tveggja stunda viðræður um ýmisleg alþjóðleg mál,“ að því er blaðið hefur eftir nafnlausum starfsmanni þingnefndarinnar.

Árið eftir funduðu Trump og Pútín á ný og höfnuðu því þá að hafa aðstoðarmenn viðstadda viðræður sínar líkt og venja er.

AFP-fréttaveitan segir Trump áður hafa lýst yfir efasemdum um mikilvægi þess að vera vel undirbúinn fyrir mikilvæga milliríkjafundi og hefur hann sagt „viðhorf“ skipta meiru máli en undirbúningur. Þannig sagði Trump til að mynda fyrir fyrsta fund sinn með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu ,í Singapúr í fyrra: „Ég held ekki að ég þurfi að undirbúa mig mikið ... Þetta snýst allt um viðhorf. Um viljann til að koma hlutum í verk.“

Trump hefur líka hafnað fullyrðingum Tillersons og segist hafa verið „fullkomlega undirbúinn“ fyrir fundinn með Pútín. „Okkur gekk mjög vel á þeim fundum,“ hefur Washington Post eftir forsetanum.

Tillerson hefur hins vegar áður lýst Trump sem óöguðum einstaklingi sem ítrekað sýni vilja til að brjóta lögin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert