Meng játar að hafa þegið mútur

Meng Hongwei, fyrrverandi forstjóri Interpol.
Meng Hongwei, fyrrverandi forstjóri Interpol. AFP

Fyrrverandi forstjóri Interpol, Meng Hongwei, játaði við réttarhöld í Kína í dag að hafa þegið 2,1 milljón Bandaríkjadala, 266 milljónir króna, í mútur. Meng var áður var­aráðherra al­manna­ör­ygg­ismála Kína.

Það vakti mikl­ar áhyggj­ur alþjóðasam­fé­lags­ins er Meng hvarf, að því er virt­ist spor­laust í sept­em­ber í fyrra. Eig­in­kona hans til­kynnti að hans væri saknað eft­ir að hann fór í ferð heim til Kína, en Meng-hjón­in voru bú­sett í Frakklandi þar sem höfuðstöðvar In­terpol eru, þegar þetta átti sér stað. Fljót­lega eft­ir hvarf hans sagði hann af sér sem for­stjóri In­terpol eft­ir að greint var frá að hann væri í haldi kín­verskra yf­ir­valda. 

Meng sýndi iðrun við réttarhöldin segir í fréttum kínverskra fjölmiðla en dómurinn verður birtur á ákveðnum degi, segir í yfirlýsingu frá réttinum á Weibo, sem er kínverska útgáfan af Twitter. 

Meng er hluti af ört vaxandi hópi fólks innan Kommúnistaflokks Kína sem hefur verið ákært fyrir margvísleg brot en allt er þetta fólk sem forseti Kína, Xi Jinping, telur pólitíska andstæðinga sína innan flokksins.

Eiginkona Meng, Grace Meng, fékk í síðasta mánuði pólitískt hæli í Frakklandi en hún óttaðist að henni og tveimur barna þeirra yrði rænt ef þau dveldu áfram í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert