Skaut rangan mann

David Ortiz.
David Ortiz. AFP

Fyrrverandi hafnaboltaleikmaður Boston Red Sox, David Ortiz, var ekki skotmarkið þegar hann varð fyrir skotárás í heimaborg sinni Santo Domingo í Dóminíska lýðveldinu 9. júní. 

Ortiz er á batavegi eftir að hafa verið skotinn í bakið þar sem hann var á næturklúbbi. Að sögn saksóknara beindist árásin að kaupsýslumanninum Sixto David Fernandez sem er vinur Ortiz.

Félagarnir sátu við borð á bar þegar Ortiz varð fyrir skoti. Hann særðist alvarlega og þurfti að fjarlægja gallblöðru hans, hluta af ristli hans og fleiri líffæri. Ortiz var fyrst á sjúkrahúsi í Dóminíska en síðan var flogið með hann til Boston þar sem hann fór í fleiri aðgerðir. Hann dvelur enn á sjúkrahúsi þar. 

Tíu hafa verið handteknir í tengslum við árásina. Meðal þeirra er maðurinn sem skaut úr byssunni. Hann á að hafa fengið greidda átta þúsund Bandaríkjadali fyrir verkið. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert