Vilja 4,5 milljarða til mannúðaraðstoðar

Frumvarpið á á brattann að sækja í öldungadeildarþinginu þar sem …
Frumvarpið á á brattann að sækja í öldungadeildarþinginu þar sem þingmenn Repúblikanaflokksins eru í meirihluta. AFP

Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa samþykkt að veita 4,5 milljörðum dollara í mannúðaraðstoð við landamæri Bandaríkjanna í suðri, en slæm meðferð og dauðsföll flóttamanna við landamærin hafa vakið mikla athygli um heim allan undanfarnar vikur og mánuði.

Frumvarpið á hins vegar á brattann að sækja í öldungadeildinni þar sem þingmenn Repúblikanaflokksins eru í meirihluta.

Öldungadeildarþingmenn hyggjast leggja fram gagnfrumvarp þar sem færri hömlur eru settar á ákvörðunarvald landamæramiðstöðvanna um það til hvers fjármagnið skal notað, en í frumvarpi demókrata er féð aðeins ætlað til mannúðaraðstoðar og ekki má nota það til innkaupa eða til byggingar veggja.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tjáð sig um ljósmyndina af feðginum sem drukknuðu við landamærin og farið eins og eldur í sinu um netheima. Hann segist, samkvæmt fréttastofu AFP, hata að sjá þessa hræðilegu ljósmynd og kveðst fullviss um að faðirinn hafi verið frábær maður.

Þá segir hann andstöðu demókrata við hert landamæraeftirlit um að kenna.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert