Bráðabirgða vopnahlé í tollastríði

Donald Trump Bandaríkjaforseti er kominn til Osaka í Japan þar …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er kominn til Osaka í Japan þar sem G20-ráðstefnan fer fram um helgina. Hann mun funda með Xi Jingping forseta Kína fyrir helgi. AFP

Bandaríkin og Kína hafa ákveðið að leggja tímabundið niður vopn í tollastríði sem geisað hefur milli landanna í um það bil eitt ár. Ekki verða lagðir á frekari tollar á innflutning milli landanna í bili.

South China Morning Post greinir frá.

Forsetar ríkjanna, þeir Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping forseti Kína munu funda saman í vikunni fyrir G20-ráðstefnuna sem haldin verður í Osaka í Japan um helgina. Talið er að Xi Jingping hafi sett það sem skilyrði fyrir fundinum við Trump að ekki yrðu lagðir á frekari tollar í bili. Búist er við fréttatilkynningum frá Kína og Bandaríkjunum fljótlega vegna niðurstöðunnar.

Ef heimildir fjölmiðla um fyrirhugað vopnahlé í tollastríðinu reynast réttar þá mun það koma í veg fyrir að Bandaríkin leggi á fyrirhugaða tolla á yfir 300 milljarða dollara virði af varningi frá Kína. Talsmenn Hvíta hússins og viðskiptasendinefndar Bandaríkjanna neituðu að tjá sig um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert