Nýnasisti játar morð

AFP

Tveir hafa verið handteknir til viðbótar vegna morðs á þýskum stjórnmálamanni, Walter Lübcke, fyrr í mánuðinum. Þýskur nýnasisti játaði í gær að hafa skotið Lübcke til bana. 

Stephan Ernst, sem er 45 ára gamall öfgasinni með sakaferil að baki, var handtekinn fyrir morðið á Lübcke 2. júní. Innanríkisráðherra Þýskalands greindi frá því á þingi í gær að Ernst hefði játað á sig morðið en Lübcke var skotinn af stuttu færi. Lübcke var þekktur fyrir skoðanir sínar varðandi móttöku flóttafólks en hann taldi það siðferðislega skyldu Þjóðverja að taka á móti fólki á flótta. Der Spiegel segir að ástæðan fyrir morðinu sé nýtt húsnæði fyrir flóttafólk í borginni Kessel. Ernst var handtekinn í smábæ skammt frá Kessel en lífsýni hans fundust á vettvangi morðsins.

Walter Lübcke.
Walter Lübcke. AFP

Morðið hefur verið mjög til umræðu í Þýskalandi og vakið upp spurningar um hvort landinu hafi mistekist að taka alvarlega þá ógn sem fylgir nýnasistum. Iren Mihalic, sem fer með innanríkismál hjá Græningjum, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að það hafi fengist staðfest að morðinginn sé öfgamaður. Í ljós eigi eftir að koma hvaða öfgasamtök það eru sem hann tengist. 

Rætt er um að hann tengist NSU, Nationalsozialistischer Untergrund, en nýnasistasamtökin stóðu á bak við morð á níu tyrkneskum og grískum innflytjendum og þýskri lögreglukonu á árunum 2000 til 2007.

Flokkur Angelu Merkel, Kristilegir demókratar, segir að ein af ástæðum morðsins sé hvernig þjóðernisflokkurinn AfD kyndi undir hatri öfgamanna. Flokkurinn nýtur mestra vinsælda í þeim hluta Þýskalands sem áður hét Austur-Þýskaland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert