Reiðubúin til að fara í fangelsi

AFP

Skipstjóri björgunarskipsins Sea-Watch 3 á yfir höfði sér refsingu fyrir að hafa brotið ítölsk lög með því að sigla skipinu inn í ítalska landhelgi. Um borð eru 42 flóttamenn sem var bjargað úr sjávarháska. Ítölsk yfirvöld neita að taka við flóttafólkinu.

Carola Racete er skipstjóri á Sea-Watch 3 og hún á yfir höfði sér háar sektir fyrir athæfið. Að hennar sögn er hún reiðubúin til þess að fara í fangelsi ef það verður fólki til lífs.

„Ég veit að þessu fylgir hætta en skipbrotsmennirnir 42 sem eru um borð eru örmagna.“ Þetta er haft eftir henni á Twitter-síðu þýsku hjálparsamtakanna. 

„Ég er reiðubúin að fara í fangelsi ef einhver ákærir mig fyrir þetta og er tilbúin að verja mig fyrir rétti ef þörf er á því við erum að gera það eina rétta,“ segir hún í myndskeiði sem er birt á samfélagsmiðlum. 

„Við Evrópubúar höfum heimilað ríkisstjórnum okkar að byggja múra á hafi úti,“ segir Racete og bætir því við að hún njóti þeirra forréttinda að geta veitt raunverulega aðstoð. 

Matteo Salvini ásamt Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Matteo Salvini ásamt Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hefur reynt að banna björgunarskipinu, sem siglir undir hollenskum fána, að koma til hafnar en þessi stefna stjórnvalda hefur valdið því að flóttafólk hefur ítrekað strandað á hafi úti. „Þeir sem láta reglur sig engu varða verða að svara fyrir það,“ skrifar Salvini á samfélagsmiðla og bætir við að svo virðist sem þeir bíði þess að handtökuskipun verði gefin út á hendur þeim.

Vefsíður þar sem fylgst er með skipaferðum sýna að skipið, sem er gert út af þýsku mannúðarsamtökunum Sea-Watch NGO, fór inn fyrir landhelgi Ítalíu í gær eftir að hafa eytt 14 vikum í að sigla fram og til baka fyrir utan strönd syðstu eyju Ítalíu.

Salvini segir á Facebook að ítölsk yfirvöld muni beita öllum þeim lögformlegu heimildum sem þau hafa til þess að stöðva skip sem ekki fer að lögum og setur tugi flóttamanna í hættu í pólitískum hráskinnaleik. 

„Ég mun ekki veita neinum heimild til að leggjast að landi. Þolinmæði okkar er á þrotum. Hollendingar þurfa að svara.“

Að sögn Salvini mun sendiherra Ítalíu í Hollandi fara með málið í formlegt ferli þar í landi svo hægt verði að leysa þessa deilu.

Af þeim 53 flóttamönnum sem áhöfn Sea-Watch 3 bjargaði fyrir utan strönd Líbýu hafa ítölsk yfirvöld tekið við 12. Um er að ræða fólk í viðkvæmri stöðu. Salvini sagði fyrr í mánuðinum að skipstjórinn, eigandi og útgerð skipsins þyrftu að greiða 50 þúsund evrur í sekt færi skipið inn í ítalska landhelgi án heimildar.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti Ítalíu hafa yfir 400 flóttamenn komið til landsins síðustu tvær vikur með litlum bátum.

Sea-Watch 3.
Sea-Watch 3. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert