Bera kennsl á líkamsleifar bakpokaferðalangs

Erwan Ferrieux (t.h.) og Hugo Palmer (t.v.) hurfu er þeir …
Erwan Ferrieux (t.h.) og Hugo Palmer (t.v.) hurfu er þeir voru saman á bakpokaferðalagi. Ljósmynd/Lögregan í New South Wales

Ástralska lögreglan hefur greint frá því að tekist hafi að bera kennsl á líkamsleifar fransks bakpokaferðalangs sem hvarf fyrir 5 mánuðum síðan með DNA-rannsókn.

Frakkinn, Erwan Ferrieux, hvarf ásamt breskum bakpokaferðalangi, Hugo Palmer, er þeir voru á ferð norður af Sydney. Ekkert hefur enn spurst til Palmers.

BBC segir áströlsk yfirvöld telja þá hafa drukknað eftir að hafa stungið sér til sunds af strönd á svæðinu.

Bein sem fundust í sjónum eru sögð samsvara erfðaefni Ferrieux, en að sögn lögreglu munu frekari rannsóknir þó staðfesta fundinn.

Ferrieux og Palmer, sem báðir voru um tvítugt, voru á ferð saman meðfram strandlengjunni í New South Wales er þeir hurfu. Leit hófst að þeim 18. febrúar eftir að handklæði og sólgleraugu í eigu þeirra fundust á Shelly-ströndinni. Bílaleigubíll tvímenninganna fannst svo í nágrenninu.

Leit úr lofti og á sjó skilaði hins vegar engum árangri, þar til veiðimenn fundu þrjú mannabein á nálægri strönd í síðasta mánuði. Eitt bein til viðbótar fannst svo á annarri strönd í gær og verður gerð DNA-rannsókn á því á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert