Grískt flotvesti talið dauðagildra

Ekki er gott að spá um örlög Mikkel litla, þriggja …
Ekki er gott að spá um örlög Mikkel litla, þriggja ára, hefði móðir hans ekki verið tilbúin að grípa inn í þegar flotvestið sneri honum hægt og rólega á grúfu þaðan sem hann komst ekki af eigin rammleik. Framleiðandinn prófar vestin aðeins á dúkkum, að sögn Martin Norløff Twist, og hefur myndskeiðinu verið deilt tæplega 34.000 sinnum á Facebook. Skjáskot/Myndskeið Martin Norløff Twist

Mörgum Norðmanninum varð ekki um sel þegar Martin Norløff Twist, hótelstjóri í Tønsberg í Noregi, birti stutt en óhugnanlegt myndskeið á Facebook-síðu sinni af tilraun sem þau hjónin gerðu á þriggja ára syni sínum, Mikkel, einfaldlega til að prófa flotvesti, sem framleitt er í Grikklandi. Á nokkrum sekúndum sneri vestið barninu á grúfu í vatninu og gat það ekki snúið sér á bakið aftur af eigin rammleik og því málalokin ljós hefði barnið fallið í sjó eða vatn eftirlitslaust. Myndskeiðið má horfa á neðst í fréttinni.

Í dag tilkynnti Europris-verslanakeðjan í Noregi að hún hefði þegar tekið vestin úr sölu og haft samband við framleiðandann í Grikklandi.

„Framleiðandinn gaf svo út fréttatilkynningu í dag sem ég fékk senda,“ segir Twist í samtali við mbl.is nú síðdegis, en öll fjölskyldan er með annan fótinn á þilfari og stundar frístundasiglingar af miklum móð svo sem títt er um fólk frá Suður- og Vestur-Noregi. „Þar sögðust þeir hafa prófað vestið ítarlega á dúkkum og hefðu auk þess getið þess í leiðbeiningum að félli barn í vatn, íklætt vestinu, ætti það að liggja grafkyrrt í vatninu, þá sneri vestið því við,“ segir hótelstjórinn og rekur upp hlátrasköll.

Segir ekki eins árs barni að liggja kyrru við drukknun

„Þessi vesti eru fyrir börn á þyngdarbilinu 10 til 20 kíló, eins til þriggja ára. Þú segir nú ekki eins árs barni eins og ekkert sé sjálfsagðara að detti það í sjóinn og sé að drukkna skuli það bara liggja grafkyrrt í vatninu og bíða eftir að vestið snúi því,“ segir Twist og bætir því við að ætlun hans hafi ekki verið að koma einhverju höggi á Europris, þetta sé bara sjálfsagt öryggisatriði og fólk geri almennt ekki mikið af því að prófa öryggisbúnað fyrir sjófarendur, það kaupi hann bara og svo sé hann inni í skáp í bátnum þar til eitthvað gerist eða gerist ekki.

Fjölskyldan er í fríi við Tvedestrand í Øst-Agder í Suður-Noregi og þar gekkst Mikkel litli undir tilraunina sem fór fram í vatni skammt frá sumarbústað þeirra. Fólkið hefur verið á kafi í siglingum árum saman. „Pabbi og afi voru báðir á sjó og pabbi var keppnismaður í siglingum,“ segir Twist, „sonurinn sem prófaði vestið byrjaði í ungbarnasundi fimm mánaða gamall og líður hvergi betur en í vatni. Þessi uppákoma breytti því sem betur fer ekki neitt.“

„Ég setti þetta svo á Facebook, ætlaði bara að benda helstu vinum og kunningjum á þetta en þetta fór út um allt,“ segir Twist og ýkir ekki þar sem myndskeiðinu hefur verið deilt 33.000 sinnum nú þegar viðtalið er skrifað. „Þetta er CE-merkt og ISO-vottað, lítur allt rétt út, en við ákváðum að prófa það, við prófum allan öryggisbúnað,“ útskýrir Twist. „Ég sendi Europris svo myndskeiðið. Í fyrstu heyrðist ekkert frá þeim, en þegar NRK og VG höfðu greint frá málinu liðu ekki margir tímar þar til haft var samband við mig.“

„Framleiðandinn sagði við mig að mögulega hefði ég bara verið óheppinn og keypt gallað vesti en mér finnst það nú lítil huggun í þessu máli auk þess sem þeir prófa þetta ekki á lifandi manneskjum heldur dúkkum sem liggja grafkyrrar í vatninu,“ segir Twist.

Litið mjög alvarlegum augum

Pål Wibe, forstjóri Europris í Noregi, segir við norska ríkisútvarpið NRK, sem fyrst greindi frá málinu, að stjórnendum verslunarinnar væri kunnugt um vestismálið. Knut Spære innkaupastjóri segir enn fremur að málið sé litið mjög alvarlegum augum þar á bæ. „Við höfum verslað við þennan framleiðanda í tvö ár, reyndar erum við nýbúin að taka þessi vesti inn í sölu, en einn í innkaupadeildinni hefur keypt þau sjálfur og notað á eigin börn án þess að nokkuð hafi komið upp á,“ segir Spære í tölvupósti til NRK.

Hjónin Martin Norløff Twist og Thea Høyem Twist prófuðu flotvesti …
Hjónin Martin Norløff Twist og Thea Høyem Twist prófuðu flotvesti úr Europris á Mikkel syni sínum og sneri vestið honum hægt og rólega á grúfu í vatninu þannig að hann gat enga björg sér veitt. Ljósmynd/Aðsend

Við bíðum núna svars frá framleiðandanum og frekari prófana á vestunum, en þau verða klárlega ekki í sölu meira fyrr en eitthvað kemur út úr því,“ segir Spære enn fremur.

Vestið sem hér er til umfjöllunar kallast flytevest á norsku, eða flotvesti. Þann sem hér skrifar rámaði í af námskeiði í Slysavarnaskóla sjómanna nánast í byrjun aldarinnar að gerður væri greinarmunur á flotvestum og björgunarvestum, þau síðarnefndu væru svo úr garði gerð að þau sneru meðvitundarlausum notanda við lægi hann á grúfu í vatni. 

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, staðfesti þessi minningarbrot í samtali. „Jú jú, björgunarvesti á að snúa meðvitundarlausri manneskju við á fimm sekúndum þannig að hún sé ekki með vitin ofan í vatni,“ segir Hilmar, en bendir á að banaslys hafi þó orðið þar sem vesti virkuðu ekki sem skyldi, þrír menn hefðu drukknað í Bretlandi í vestum sem náðu ekki að snúa þeim.

Flotvesti sagði Hilmar halda manneskju á floti í sjó, en væri hún meðvitundarlaus hefði það ekki endilega tilhneigingu til að snúa manneskju þannig að vitin snúi upp og því ekki endilega til þess fallið að bjarga mannslífum. Þetta snúist líka um flotmagnið sem vestið er gefið upp fyrir.

„Svo er það nú alltaf ein staðreyndin að fólk er mikið til ekki klætt vestum þegar það er á sjó,“ segir Hilmar.

Vestið sem hér er til umfjöllunar er flotvesti en væntanlega ábótavant í einhverju snúi það barni á grúfu í þannig stöðu að það geti ekki snúið sér aftur hjálparlaust.

Hér að neðan má sjá myndskeið Twist sem vakið hefur viðbrögð alla leið til Grikklands og óhætt er að segja að hafi farið sem eldur í sinu um lýðnetið, en 33.000 Facebook-notendur hafa deilt því á síðum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert