Tveir milljarðar búa við fæðuskort

Um tveir milljarðar manna búa við fæðuskort. Mynd úr safni.
Um tveir milljarðar manna búa við fæðuskort. Mynd úr safni. AFP

Rúmlega 820 milljónir jarðarbúa bjuggu við hungur í fyrra og hefur fjöldinn lítið breyst frá árinu 2015, er hann mældist tæp 11%. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), gaf út í dag í samstarfi við UNICEF, matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP), Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO) og Alþjóðasjóð um þróun land­búnaðar  (IFAD). 

Áratugina á undan hafði dregið með stöðugum hætti úr hungri í heiminum. Frá 2015 hefur hins vegar þeim sem búa við hungur tekið að fjölga hægt og sígandi á nýjan leik, sem gerir markmið þess risavaxna verkefnis að binda endi á hungur í heiminum árið 2030 enn fjarlægara. 

Að því er fram kemur í skýrslunni þá er fer þeim íbúum fjölgandi sem búa við hungur í flestum ríkjum Afríku og er álfan það svæði þar sem tíðni vannæringar er hæst, en tæp 20% íbúa þar þjást af vannæringu. Hungur eykst líka hægt og sígandi í ríkjum Suður-Ameríku og ríkjum Karíbahafsins, þó það sé enn undir 7%. Hungur hefur líka færst í vöxt í ríkjum Vestur-Asíu frá árinu 2012 og teljast nú rúm 12% íbúa þar vera vannærð.

Tengsl loftslagsvár og matvælaframleiðslu 

Bent er á það í inngangsorðum skýrslunnar að íbúum jarðar fari sífellt fjölgandi og að meirihluti þeirra búi nú orðið í þéttbýli. Tækniframfarir séu hraðar og hagkerfi heims að verða sífellt alþjóðlegri og tengdari. Ekki öll ríki hafa hins vegar upplifað viðvarandi vöxt og þá hefur efnahagur heims ekki vaxið á þeim hraða sem útreikningar gerðu ráð fyrir.

„Átök og óstöðugleiki hafa færst í aukana,“ segir í skýrslunni og er bent á að  slíkt leiði til aukinna fólksflutninga. „Loftslagsbreytingar, auknar veðurfarssveiflur og öfgar hafa nú áhrif á landbúnaðarframleiðslu, matvælaframleiðslu og náttúruauðlindir sem hefur aftur áhrif á matvælakerfi og afkomu til sveita og veldur m.a. því að bændum fækkar.“

8% íbúa N-Ameríku og Evrópu búa við fæðuskort

Um tveir milljarðar manna búa nú við mikinn eða í meðallagi mikinn fæðuskort. Skortur á stöðugu aðgengi að næringaríkri og nægri fæðu veldur þá aukinni hættu á vannæringu og heilsufarsvandamálum hjá þessum hópi.

Þó að vandinn sé að stærstum hluta bundin við tekjulægri ríki, búa 8% íbúa Norður-Ameríku og Evrópu einnig við fæðuskort. Þegar rýnt er í kynjaskiptinguna sést að í öllum heimsálfum búa fleiri konur en karlar við fæðuskort.

Bent er á að ekki hafi öll ríki heims náð að rétta úr kútnum eftir efnahagskreppuna 2008. Vakin er athygli á því, nú þegar stefni í erfiðara efnahagsástand á ný, að hungur færist nú í vöxt í sumum þeirra ríkja þar sem efnahagsvöxtur hefur staðnað.

Segja skýrsluhöfundar athyglisvert að meirihluti þeirra séu ekki tekjulægstu ríkin, heldur ríki með meðaltekjur, sem og ríki sem þurfi í miklum mæli að reiða sig á alþjóðleg viðskipti varðandi neysluvarning.

Þá eru líkur á viðvarandi fæðuskorti sagðar aukast með efnahagsáföllum og sé ekki brugðist við þá geti það haft alvarleg vannæringar áhrif í för með sér.

 44% of þungra barna í offituflokk

Fæðingaþyngd sjöunda hvers barns, eða 20,5 milljón barna, var of lág árið 2015 og hefur þetta hlutfall ekkert breyst frá 2012. Börnum undir fimm ára aldri sem eru teljast of lítil miðað við aldur hefur þó fækkað um 10%.

Offita og ofþyngd færist á sama tíma í aukana í öllum heimshlutum, ekki hvað síst hjá fullorðnum og börnum á skólaaldri. Árið 2018 töldust 40 milljónir barna undir fimm ára aldri vera of þung, 2016 voru 131 milljón barna á aldrinum 5-9 ára of þung, 207 milljón unglingar og tveir milljarðar fullorðinna. Um þriðjungur þeirra unglinga og fullorðinna sem töldust of þung féllu í offitu flokk og 44% barna á aldrinum 5-9 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert