Hluti vængsins brotnaði af

Hluti af flaki GippsAero GA8 Airvan-vélarinnar á eyjunni Stora Sandskär …
Hluti af flaki GippsAero GA8 Airvan-vélarinnar á eyjunni Stora Sandskär utan við Umeå. Torfærar aðstæður töfðu mjög komu viðbragðsaðila á slysstað sem ekki réð þó neinum úrslitum þar sem öruggt er talið að níumenningarnir hafi látist samstundis við höggið eftir að vélin skall til jarðar á örfáum sekúndum úr fallhlífarstökkshæð. AFP

Stefan Löfven forsætisráðherra og Carl Gustav Svíakonungur eru meðal þeirra sem vottað hafa aðstandendum fórnarlamba flugslyssins á eyjunni Stora Sandskär utan við Umeå í Austur-Svíþjóð um helgina samúð sína. Tæplega 500 manns sóttu minningarstund um hina látnu í Stadskyrkan í Umeå í gærkvöldi þar sem séra Ingrid Holmström Pavaal þjónaði fyrir altari og sendi Löfven forsætisráðherra kirkjugestum sérstaka kveðju við athöfnina.

Sænska þjóðin er slegin harmi eftir slysið en fara þarf aftur til ársins 2012 til að finna síðasta flugslys í landinu sem kostaði mörg mannslíf, Kebnekaise-slysið svokallaða 15. mars 2012, þegar Lockheed Martin C-130 Herkules-flugvél 335. flugsveitar sænska flughersins flaug viðstöðulaust á hlíð fjallsins Kebnekaise, um 80 kílómetra vestur af Kiruna, við framkvæmd heræfingarinnar Cold Response og fimm manna áhöfn lést samstundis.

Síðasta stóra slys þar á undan varð árið 1991, Gottröra-slysið, en í því lést reyndar enginn sem taldist nánast kraftaverk þegar flug SAS-flugfélagsins númer 751, MD-81-farþegaþota á leið frá Arlanda-flugvellinum í Stokkhólmi til Varsjár í Póllandi, missti afl beggja hreyfla þegar ís af vængjunum sogaðist inn í þá og nauðlenti í Gottröra í Uppland af slíku afli að vélin brotnaði í þrjá hluta. Af 129 manns slösuðust 25 en enginn lést.

Segir vélina hafa verið skráða fyrir átta manns

Norska dagblaðið VG ræddi við sænska flugsérfræðinginn Jan Ohlsson sem sagði að flugvélin í Umeå-slysinu, af gerðinni GippsAero GA8 Airvan, væri aðeins skráð fyrir átta manns, ekki níu svo sem um borð hefðu verið, átta fallhlífarstökkvarar og flugmaður. Annar flugmaður, sem var í nágrenninu og hafði oft flogið vélinni sem hrapaði, sagði sænska Aftonbladet frá skelfilegum augnablikum eins og mbl.is greindi frá í gær.

Fjöldi vitna hefur lýst því yfir við skandinvíska fjölmiðla að annar vængur vélarinnar hafi brotnað af að hluta eða í heild áður en hún steyptist til jarðar á um það bil þremur sekúndum um það bil er stökkvararnir voru reiðubúnir að stökkva og staðfestu blaðamenn Aftonbladet sem flugu í þyrlu yfir slysstaðinn að vængur hefði legið um 500 metra frá flakinu. Segir Ohlsson vélina auðveldlega hafa getað tapað jafnvægi við það að stökkvararnir fluttu sig til í henni, ekki hafi meira þurft til í svo litlu flugfari.

Forsíður skandinavískra blaða voru þaktar fréttum af slysinu í gær …
Forsíður skandinavískra blaða voru þaktar fréttum af slysinu í gær og var norska blaðið VG þar engin undantekning. Þessi mynd styður framburð fjölda sjónarvotta um að annar vængurinn hafi losnað frá vélinni áður en hún steyptist til jarðar. Ljósmynd/Forsíða VG í gærmorgun

Engir flugritar, eða svartir kassar svokallaðir, eru í svo litlum flugvélum og mun rannsóknarnefnd samgönguslysa í Svíþjóð, Statens haverikommission, rannsaka hæðartap vélarinnar með farsímum og GoPro-myndavélum stökkvaranna sem skrá hæð og staðsetningu tækjanna.

Peter Swaffer, gamalreyndur flugmaður og deildarstjóri nefndarinnar, fór á vettvang í dag og sagði við norska og sænska fjölmiðla að nefndin hallaðist nú að því að annar vængurinn hefði brotnað af vélinni í heild eða að hluta áður en hún steyptist til jarðar. Flakið hefur verið flutt í skoðunarhúsnæði nefndarinnar þar sem tæknimenn munu liggja yfir því vikum eða mánuðum saman með það fyrir augum að leiða í ljós hvað fór svo hörmulega úrskeiðis þegar átta sænskir fallhlífarstökkvarar og flugmaður hugðust eiga góða síðdegisstund sunnudaginn 14. júlí, en flugu þess í stað á fund eilífðarinnar, þjóð sinni til harms og nauða.

VG

VGII (minningarathöfn)

VGIII (viðbrögð samtaka fallhlífarstökkvara í Svíþjóð)

NRK (vængurinn brotnaði)

NRKII (geta snjallsímar varpað ljósi?)

Sænska ríkisútvarpið SVT (viðtal við Peter Swaffer)

Aftonbladet (tómar götur í Umeå)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert