Tilnefning von der Leyen staðfest

Ursula von der Leyen tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar 1. …
Ursula von der Leyen tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar 1. nóvember. AFP

Evrópuþingið staðfesti rétt í þessu tilnefningu Þjóðverjans Ursulu von der Leyen í embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, annars tveggja valdamestu embætta þess. 

Þingfundur hófst á Evrópuþinginu nú klukkan fjögur og lágu úrslit fyrir um klukkan hálfsex. Úrslit stóðu tæpt. Von der Leyen hlaut 383 atkvæði þingmannanna 751, eða 51%. 327 kusu gegn. Hún er tilnefnd til starfsins af leiðtogaráði sambandsins, en í því sitja ýmist forsetar eða forsætisráðherrar, nú eða kanslarar, aðildarríkja eftir stjórnskipan hvers lands.

Þingmenn Græningja hlýddu á hugmyndir Ursulu von der Leyen í …
Þingmenn Græningja hlýddu á hugmyndir Ursulu von der Leyen í morgun. Nýr þingfundur hófst klukkan fjögur og voru atkvæði greidd stuttu síðar. AFP

Lissabon-sáttmálanum samkvæmt ber þinginu að staðfesta tilnefningu leiðtogaráðsins, en nokkur óvissa ríkti um það framan af hvort þingmönnum hugnaðist að fá hana til starfa. Ákvörðunin um að skipa von der Leyen kom mörg­um í opna skjöldu, ekki síst vegna þess að hún var ekki odd­viti neins banda­lags í Evr­ópuþing­kosn­ing­un­um í maí, ólíkt forvera hennar, Jean-Claude Juncker sem var oddviti bandalags hægriflokka, EPP, í kosningunum 2014.

Evr­ópuþing­menn hafa marg­ir hverj­ir, frá því odd­vita­fyr­ir­komu­lagið var tekið upp árið 2014, lagt mikla áherslu á að leiðtogaráðið virði það og skipi einn af odd­vit­um flokka­banda­lag­anna í embættið.

Kynjajafnrétti, umhverfismál, Evrópusamruni

Von der Leyen hefur síðustu vikur varið ómældum tíma á fundum með þingmönnum til að sannfæra þá um að greiða sér atkvæði. Það hefur borið árangur því bandalag jafnaðarmanna á Evrópuþingi, S&D, hefur nú gefið út að það styðji von der Leyen. Þar með var björninn unninn því hún naut fyrir yfirgnæfandi stuðnings síns eigin flokks, hægribandalagsins EPP, og frjálslyndra, Renew Europe (áður ALDE), flokks Macron Frakklandsforseta. Þá naut hún einnig einhvers stuðnings innan raða græningja.

Fréttavefurinn Euractiv greinir frá því í dag að nokkurrar óánægju gæti innan raða hægribandalagsins með þær málamiðlanir sem von der Leyen hafi gert til að afla sér nauðsynlegs stuðnings út fyrir flokkinn. Hefur von der Leyen til að mynda talað fyrir því að Evrópusambandinu beri að setja sér metnaðarfyllri loftslagsmarkmið en nú eru í gildi. Á fyrstu hundrað dögum sínum í embætti verði kynnt loftslagsáætlun þar sem fjárfestingar í grænni orku verði auknar og brugðist verði við því þegar fyrirtæki flakka með starfsemi sína milli landa þegar mengunartakmörkunum er náð.

Okkar sameiginlega markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030 er ekki nóg. Við þurfum að ganga lengra,“ sagði von der Leyen þegar hún ávarpaði þingmenn í morgun, og var það eflaust sem fuglasöngur í grænum eyrum.

Von der Leyen er eindreginn stuðningsmaður Evrópusamrunans, líkt og Juncker forveri, og hefur hún látið hafa eftir sér að hún sjái fyrir sér evrópskt sambandsríki að bandarískri, svissneskri og þýskri fyrirmynd.

Charles Michel, fráfarandi forsætisráðherra Belgíu, tekur við sem forseti leiðtogaráðsins …
Charles Michel, fráfarandi forsætisráðherra Belgíu, tekur við sem forseti leiðtogaráðsins um svipað leyti og von der Leyen tekur til starfa. AFP

 

Þá hefur hún heitið því að konur og karlar muni skipa æðstu embætti til jafns í valdatíð hennar en Evrópusambandinu hefur gjarnan verið legið á hálsi fyrir það hve fáar konur halda þar um valdataumana. Til marks um það má nefna að Ursula von der Leyen verður fyrsta konan til að gegna öðru tveggja valdamestu embætta sambandsins, en þau er forseti framkvæmdastjórnar og forseti leiðtogaráðs.  

Á sama fundi leiðtogaráðsins í upphafi mánaðar var Christine Lagarde skipuð forseti Evrópska seðlabankans, fyrst kvenna.

Það gæti þó verið hægara sagt en gert fyrir von der Leyen að jafna hlut kynjanna í eigin framkvæmdastjórn því þar sitja 28 stjórar, einn frá hverju aðildarríki, og sér hver ríkisstjórn fyrir sig um að skipa sinn fulltrúa, sem verða þó í störfum sínum að hafa hag Evrópubúa allra að leiðarljósi, eins og kveðið er á um í títtnefndum Lissabon-sáttmála.

Uppfært 17:37

Þegar fréttin birtist var atkvæðagreiðslu ekki lokið. Henni er nú lokið og hefur fréttinni verið breytt í samræmi við það.

Hermenn hefja Evrópufánann á loft við setningu Evrópuþingsins í byrjun …
Hermenn hefja Evrópufánann á loft við setningu Evrópuþingsins í byrjun mánaðar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert