Forstjóri kjarnorkumálastofnunar látinn

Yukiya Amano, forstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunnarinnar. Hann var 72 ára er hann …
Yukiya Amano, forstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunnarinnar. Hann var 72 ára er hann lést. AFP

Yukia Amano, forstjóri Alþjóðakjarnorkumálstofnunarinnar (IAEA), er látinn 72 ára að aldri. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin greindi frá þessu í yfirlýsingu í dag, en áður hafði verið búist við að Amano myndi tilkynna á næstunni um afsögn sína vegna ótilgreindra veikinda.

Amano hafði  m.a. yfirumsjón með viðræðum IAEA við írönsk stjórnvöld vegna kjarnorkuáætlana landsins og einkenndust þær viðræður oft af mikilli spennu.

Ekki liggur fyrir hver mun taka við af Amano, en BBC segir umræður um arftaka hans hafa hafist í síðustu viku.

Amano, sem var Japani, starfaði í utanríkisþjónustu landsins þar til  hann tók við forstjórastarfi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar af Mohamed ElBaradei árið 2009. Átti þriðja ráðningartímabili hans að ljúka í nóvember 2021. Heilsufar hans virtist þó fara versnandi frá því hann gekkst undir aðgerð í september í fyrra.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri hjá ESB, sagðist harma fráfall Amaons. Sagði hún hann hafa verið einstakan fagmann sem hafi ávallt verið til þjónustu reiðubúinn fyrir alþjóðasamfélagið. „Ég mun aldrei gleyma störfum okkar saman. Það var mér bæði ánægja og heiður að starfa með honum,“ sagði Mogherini á Twitter.

Í yfirlýsingu IAEA kemur fram að flaggað verði í hálfa stöng við höfuðstöðvar stofnunarinnar í Vín.

Amano þótti mun hlédrægari og meiri fylgismaður tækniveldis en ElBaradei, sem hafði reglulega lent saman við bandarísk stjórnvöld vegna stefnu stofnunarinnar í málefnum Írans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert