Grunaður um drápstilraun í Grikklandi

Bærinn Chora, sá stærsti á grísku eyjunni Ios þar sem …
Bærinn Chora, sá stærsti á grísku eyjunni Ios þar sem norskur framhaldsskólanemi er grunaður um að veita lagsmanni sínum alvarlegan áverka með brotinni flösku í gærkvöldi. Hann er nú í haldi á eyjunni Naxos og hefur verið neitað um að hafa lögmann viðstaddan yfirheyrslur, að sögn lögmanns hans í Noregi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Zde

Norskur framhaldsskólanemi, í föruneyti svokallaðra „russer“, sem er gælu­nafn yfir nem­end­ur í út­skrift­ar­ár­göng­um skól­anna, er í haldi lögreglu á grísku eyjunni Naxos, grunaður um að hafa veitt öðrum úr sama hópi alvarlegan hálsáverka með brotinni flösku á eyjunni Ios í gærkvöldi. Sá sem misgert var við liggur á sjúkrahúsi í höfuðborginni Aþenu.

„Við vorum heppin, útlit er fyrir að sonur okkar nái sér,“ segir faðir fórnarlambsins í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í kvöld, en grunaður árásarmaður og sá sem fyrir tjóninu varð koma frá Asker og Bærum, rétt utan við Ósló.

„Við höfum fengið mikla og góða hjálp frá starfsfólki ferðaskrifstofunnar á staðnum, það sem gerðist er á engan hátt þess sök,“ segir faðirinn.

Per Bardalen Wiggen, upplýsingafulltrúi norska utanríkisráðuneytisins, segir ráðuneytinu hafa borist fregnir af atburði á grískri eyju þar sem norskir ríkisborgarar hafi komið við sögu, en vill ekki tjá sig um málið í neinum smáatriðum.

Fjölmiðlar, þar á meðal dagblaðið VG, ræða við lögmanninn Kim Gerdts sem hefur aðstoðað grunaða frá Noregi síðan málið kom upp. Gerdts segist vera búinn að ræða við hann og vinni nú að því að útvega honum grískan lögmann. „Hann vill meina að kveikjan að því sem gerðist var að hinn hefði haft í frammi ógnandi tilburði,“ útskýrir Gerdts og kveður sinn mann lýsa sig sýknan saka í málinu.

„Þetta er mannréttindabrot“

Þá hefur Theodoros Chronopoulos, upplýsingafulltrúi grísku lögreglunnar, staðfest við VG að maðurinn sé í haldi og grunaður um verknaðinn.

Hann segir enn fremur að grunaða hafi ekki staðið til boða aðstoð lögmanns fram að þessu. „Þetta er mannréttindabrot. Ég er núna að reyna að fá honum lögmann, lögreglan hefur ekki sýnt neina tilburði til að koma til móts við hann þar,“ segir Gerdts við NRK.

Í umræddu ferðalagi til Grikklands taka þátt um 600 „russer“ sem þó eru reyndar ekki formlega orðnir það enn þá, heldur verða það rétt fyrir útskrift á lokaári sínu í framhaldsskóla sem hefst í haust.

Fastur vorboði norskra fjölmiðla eru fréttir af uppákomum á hinu árlega Landsmóti, eða Landstreffet, í Kongeparken utan við Stavanger þangað sem upp undir 15.000 útskriftarnemendur mæta, en mót þetta, sem í vor var haldið í 33. skipti, er hápunktur nokkurra vikna langrar dagskrár sem hefst seint í apríl og lýkur formlega 17. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert