Hús Palestínumanna jöfnuð við jörðu

Ísraelsmenn hafa í dag rifið nokkurn fjölda bygginga Palestínumanna á …
Ísraelsmenn hafa í dag rifið nokkurn fjölda bygginga Palestínumanna á Sur Baher-svæðinu, sunnan við Jerúsalem. AFP

Ísraelsmenn hafa í dag rifið nokkur íbúðarhús palestínskra borgara á Sur Baher-svæðinu, suður af höfuðborginni Jerúsalem, um það bil 100 íbúðir í það heila. Íbúar húsanna voru vaktir af hermönnum í nótt og skipað á brott, áður en hafist var handa við að rífa húsin með stórvirkum vinnuvélum og sprengiefnum. Mörg húsanna voru enn á byggingarstigi.

Palestínumenn hafa lýst yfir mikilli óánægju með þessar aðgerðir og Evrópusambandið hefur mótmælt þeim í dag og hvatt Ísraela til þess að hætta niðurrifinu umsvifalaust. Ísraelar segja byggingarnar ólöglegar, en þær standa nærri girðingunni sem skilur Vesturbakkann frá Jerúsalem, of nærri henni, að sögn Ísraela.

Mahmud Abbas, forseti Palestínu, kallar eftir því í yfirlýsingu að alþjóðasamfélagið bregðist við þessum aðgerðum Ísraelsmanna. Niðurrif húsanna á sér sjö ára aðdraganda, samkvæmt frétt Al Jazeera af málinu, en nýlega komst æðsti dómstóll Ísraels að þeirri niðurstöðu að hernum væri heimilt að rífa húsnæði Palestínumanna sem stæði of nálægt öryggisgirðingunni sem skilur að Vesturbakkann og Jerúsalem.

Ísraelsmenn segja húsin standa ólöglega nálægt öryggisgirðingunni sem þeir hafa …
Ísraelsmenn segja húsin standa ólöglega nálægt öryggisgirðingunni sem þeir hafa byggt umhverfis Austur-Jerúsalem. AFP

Palestínumenn segja að þessi dómur verði notaður til þess að rífa niður hús nærri girðingunni, ekki bara í Sur Baher, heldur fleiri þorpum sem liggja upp við girðinguna sem Ísraelsmenn reistu utan um Austur-Jerúsalem í upphafi aldarinnar.

Evrópusambandið segir aðgerðirnar ógna friði

Talsmaður Evrópusambandsins í utanríkismálum sagði í dag að ESB vildi að Ísraelsmenn hættu niðurrifi húsanna og sagði að þessar aðgerðir stefndu tveggja ríkja lausninni og möguleikanum á friði á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna í hættu. Þá stefndu þessar aðgerðir möguleikanum á því að Jerúsalem gæti orðið framtíðarhöfuðborg beggja ríkja í hættu.

Evrópusambandið tekur undir með Palestínumönnum, sem hafa mótmælt niðurrifinu á grundvelli þess að landið þar sem húsin standa séu á yfirráðasvæði palestínsku heimastjórnarinnar á Vesturbakkanum, eins og það er skilgreint í Óslóar-samkomulaginu.

Gilad Erdan, ráðherra innanríkisöryggis í ríkisstjórn Ísraels, sagði við útvarp ísraelska hersins í morgun að hann harmaði að hús hefðu verið byggð á þessu svæði. Það hefði verið gert þar sem það væri ekki almennilegt stjórnarfar á Vesturbakkanum. Hann sagði nálægð húsanna við öryggisgirðinguna skapa hættu fyrir ísraelska hermenn sem vakta svæðið.

Sum húsanna voru enn á byggingarstigi.
Sum húsanna voru enn á byggingarstigi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert