Svívirtu 22. júlí minnismerki

Þessi ófagra skreyting blasti við árrisulum íbúum Tønsberg í morgun, …
Þessi ófagra skreyting blasti við árrisulum íbúum Tønsberg í morgun, bæjarstarfsmenn brugðu skjótt við og höfðu fjarlægt krossinn að mestu fyrir klukkan sjö að norskum tíma. Tveir hafa verið handteknir grunaðir um verkið, minningarstund um fórnarlömb ódæðisins 22. júlí 2011 hófst klukkan 17 að íslenskum tíma. Ljósmynd/Sveitarfélagið Tønsberg

Það var í skjóli náttmyrkurs aðfaranótt dagsins í dag sem að minnsta kosti tveir óprúttnir aðilar fóru að minnismerkinu í Tønsberg um fórnarlömb Anders Behring Breivik 22. júlí 2011 og úðuðu eða máluðu á það hakakross, yfir hluta af ljóði Lars Saabye Christensen, 22 07 2011, og blasti þetta dapurlega uppátæki við árrisulum íbúum Tønsberg, en starfsmenn bæjarins brugðu skjótt við og lögðust í þrif sem var að mestu lokið klukkan sjö í morgun.

Það var Tønsbergs Blad sem rekur læsta áskriftarsíðu sem greindi fyrst frá málinu, en síðan hafa fleiri fjölmiðlar tekið það upp. Erna Solberg forsætisráðherra lá ekki á skoðun sinni þegar NTB-fréttastofan ræddi við hana og VG hafði eftir: „Þetta er forkastanlegt. Freistandi er að draga þá ályktun að undirtónninn sé pólitískur og sá sem var að verki hneigist til þessarar hugmyndafræði [sem táknið stendur fyrir]. Sé þetta bara prakkarastrik er tillitslaust að framkvæma það einmitt í dag, sem gerir upplifun allra þeirra af því sem upplifðu 22. júlí [atburðinn] mun sterkari,“ segir forsætisráðherrann.

Berjist gegn öfgahyggju

Jan Tore Sander, ráðherra menntamála og aðlögunar, skrifar á Twitter að verknaðurinn sé viðurstyggð og sýni svo ekki verði um villst hve mikilvægt sé að þjóðin hætti aldrei að minnast 22. júlí og standi vörð um lýðræðið auk þess að berjast gegn hvers lags öfgahyggju.

Lögregla í suðausturumdæminu greindi svo frá því á Twitter síðdegis í dag að íslenskum tíma að tveir menn á þrítugsaldri, íbúar í Tønsberg, hefðu verið handteknir, hvor í sínu lagi, og liggi undir grun um skemmdarverkið. Minnningarstundin fór fram eins og ekkert hefði í skorist og hófst klukkan 17 að íslenskum tíma.

Minnismerkið stendur við Hotel Klubben í þessum elsta bæ Noregs, fyrstu minjar um samfélag í Tønsberg eru frá því rétt fyrir 900 samkvæmt aldursgreiningu jarðlaga, en elstu ritaðar heimildir um bæinn eru frá 1135 og runnar undan rifjum enska sagnaritarans Orderic Vitalis.

NRK

VG

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert