Um 30 manns slasast í skógareldum

Frá þorpinu Casas da Ribeira í Portúgal í gær.
Frá þorpinu Casas da Ribeira í Portúgal í gær. AFP

Portúgalskir slökkviliðsmenn telja sig vera komna með stjórn á stærstum hluta þeirra skógarelda og kjarrelda sem geisað hafa í Castelo Branco-héraði um helgina. Þó er varað við því að stífur vindur gæti í dag orðið til þess að eldarnir blossi upp að nýju.

Um 30 manns hafa slasast í eldunum, sem 1.700 slökkviliðsmenn hafa tekist á við um helgina. Þar af var einn alvarlega brenndur og var hann fluttur til Lissabon með þyrlu.

Pedro Nunes, talsmaður almannavarna Portúgals, sagði á blaðamannafundi í morgun að slökkviliðsmenn teldu sig hafa náð stjórn á um það bil 90% af eldunum, en enn brenni skógar á stöðum sem erfitt er að komast að. Hann segir daginn í dag verða „flókinn“, þar sem sterkum vindi er spáð síðdegis.

Þétt skóglendið á þessu svæði í miðhluta landsins samanstendur aðallega af gúmmítrjám, júkalyptus, sem eru afar eldfim.

Mörg hús hafa orðið eldinum að bráð og þúsundir neyðst …
Mörg hús hafa orðið eldinum að bráð og þúsundir neyðst til þess að flýja heimili sín. AFP
Slökkviliðsmenn segjast nú hafa náð stjórn á um það bil …
Slökkviliðsmenn segjast nú hafa náð stjórn á um það bil 90% af þeim eldum sem brunnu um helgina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert