Fór á rúntinn á lögreglubifreið

Ljósmynd/Wikipedia.org

Karlmaður tók lögreglubifreið traustataki í borginni Peterborough í Bretlandi fyrr í þessum mánuði og fór í stutta bílferð á henni eftir að lögregluþjónarnir höfðu skilið hana eftir ólæsta með lyklana í kveikjulásnum á meðan þeir fengu sér kleinuhringi.

Lögreglubifreiðinni hafði verið lagt á bílastæði við veitingastað Krispy Kreme í borginni. Maðurinn fór stuttan hring um bílastæðið með blikkandi ljós áður en hann skilaði bifreiðinni aftur þangað sem henni hafði verið lagt um það leyti sem lögregluþjónarnir komu út. Myndskeið var tekið af uppátækinu sem birt hefur verið á netinu.

Maðurinn var ekki kærður vegna málsins en lögregluþjónarnir veittu honum tiltal. Þeir greindu síðan frá málinu þegar þeir komu á lögreglustöðina í borginni og var þeim sjálfum veitt tiltal vegna þess. Lögreglan segir að mannleg mistök hafi átt sér stað.

Fréttavefur breska dagblaðsins Birmingham Mail greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert