Einnota plast bannað á Everest

Mount Everest, hæsti tindur veraldar.
Mount Everest, hæsti tindur veraldar. AFP

Einnota plast hefur verið bannað á hæsta fjalli heims, Everest, og þar í kring. Með þessu vilja nepölsk yfirvöld stemma stigu við því mikla rusli sem fjallgöngumenn skilja eftir sig.

Yfirvöldin stóðu á þessu ári fyrir hreinsunarátaki á Everest og söfnuðust yfir tíu tonn af rusli. Plastbannið nær meðal annars yfir alla drykki í plastflöskum og tekur það gildi í janúar á næsta ári.

„Ef við byrjum strax mun þetta hjálpa til við að halda Everest og fjöllunum í kring hreinum til langs tíma,“ sagði embættismaðurinn Ganesh Ghimire við AFP.

Um fimmtíu þúsund ferðamenn sækja svæðið heim á hverju ári, þar á meðal stór hópur fjallgöngumanna. Þeir hafa aldrei verið fleiri en á þessu ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert