Segir stjórnvöld ekki ráða við eldana

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, segir stjórnvöld ekki ráða við ástandið.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, segir stjórnvöld ekki ráða við ástandið. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, fullyrðir að stjórnvöld séu ekki í stakk búin til að hefta útbreiðslu skógarelda sem geisa í regn­skóg­um landsins. Metfjöldi skógar­elda hefur logað á þessu ári í Amazon-regn­skógunum. BBC greinir frá.

Bolsonaro sagði að innanríkisráðuneytið hefði ekki tök á að senda 40 slökkviliðsmenn til að berjast við eldana. „40 menn til að slökkva elda? Slík bjargráð eru ekki til staðar. Stjórnleysi er orðið,“ sagði Bolsonaro þegar hann svaraði spurningum blaðamanna í dag.

Ríkisstjórn Bolsonaro hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að bregðast ekki við ástandinu og er einnig sögð bera ábyrgð á því. Bolsonaro heldur áfram að saka félagasamtök um að hafa kveikt eldana þrátt fyrir að vera ekki með neinar sannanir þess efnis. Hann segir jafnframt stjórnvöld rannsaka eldsupptök. 

Hins vegar saka náttúruvendarsamtök stjórnvöld um að standa á bak við gróðureldana. Talsmenn þeirra halda því fram að Bolsonaro hafi hvatt bændur til eyðingar skóglendis til að ryðja land fyrir búfé og akuryrkju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert