Náði að bjarga ríkisstjórninni

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, flaug snemma heim til þess að …
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, flaug snemma heim til þess að miðla málum innan ríkisstjórnar hennar. Samkomulag um vegtolla var undirritað seint í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs og formanni Hægriflokksins, virðist hafa tekist að forða ríkisstjórn sinni frá alvarlegum samstarfsbresti vegna deilna um vegtolla. Hart hefur verið deilt um málið í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga í landinu.

Samkomulag var undirritað milli ríkisstjórnarflokkanna fjögurra, Framfaraflokksins, Vinstri, Kristilega þjóðarflokksins og Hægri, um klukkan ellefu í gærkvöldi að staðartíma, að því er segir á vef norska ríkisútvarpsins NRK.

Forsætisráðherrann hafði þurft að stytta dvöl sína á Íslandi vegna deilna innan ríkisstjórnarinnar og var því ekki viðstödd kvöldverð leiðtoga Norðurlandanna á þriðjudag.

Deilan snýr að því hvernig skuli fjármagna innviðauppbyggingu og almenningssamgöngur, en sveitarstjórnarkosningar eru haldnar 9. september. Þá hefur óeining verið mest áberandi milli tveggja flokka ríkisstjórnarinnar. Annars vegar Framfaraflokksins sem segist nánast alfarið andsnúinn vegtollum og hins vegar Vinstri sem hefur viljað fjölga tollhliðum og hækka vegtolla.

Fjölmargir fundir voru haldnir á skrifstofu forsætisráðherra í gær og var boðaður blaðamannafundur stundarfjórðung fyrir níu að kvöldi. Ekki fréttist af endanlegri niðurstöðu þar sem þingflokkur Vinstri sá sér ekki fært að undirrita samkomulagið fyrr en rétt fyrir ellefu.

Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins.
Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins. AFP

Ósátt við samstarfsflokkinn

„Þetta byrjaði allt vegna þess að Framfaraflokkurinn kom með marga úrslitakosti og óraunhæfar kröfur,“ hefur NRK eftir Trine Skei Grande, formanni Vinstri. Hún segir sinn flokk hafa samþykkt samkomulagið þar sem nægileg áhersla var lögð á uppbyggingu almenningssamgangna.

„Hvað á maður að segja, hún hefur væntanlega haft þörf á að blása aðeins út. Ég er fyrst og fremst ánægð með að lagt er fram samkomulag sem lækkar vegtollaálögur á fólk flest,“ sagði Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, er NRK bað um viðbrögð við orðum Skei Grande.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert