Blettótt peysa Cobains á uppboði

Hún er ólívugræn, blettótt og hneppt. Hana prýðir brunagat eftir sígarettu og talið er að hún sé a.m.k. 200.000 - 300. 000 bandaríkjadollara virði, jafnvirði 25 - 37 milljóna íslenskra króna. Þetta er peysan sem Kurt Cobain, söngvari Nirvana, klæddist á frægustu tónleikum sveitarinnar, Unplugged eða Órafmagnað árið 1993 og hún er nú meðal muna á fyrirhuguðu uppboði. 

Kurt Cobain í peysunni góðu á frægustu tónleikum sveitarinnar, Unplugged …
Kurt Cobain í peysunni góðu á frægustu tónleikum sveitarinnar, Unplugged eða Órafmagnað árið 1993 í New York. AFP

Það er uppboðshúsið Julien´s sem hyggst bjóða peysuna upp ásamt öðrum munum úr tónlistar- og rokksögunni. Yfirskrift uppboðsins, sem mun standa yfir dagana 25. og 26. október, verður „Icons & Idols: Rock 'N' Roll“ eða Táknmyndir og goð: Rokk og ról.

Peysa Kurt Cobains. Talið er að hún sé a.m.k. 200.000 …
Peysa Kurt Cobains. Talið er að hún sé a.m.k. 200.000 - 300. 000 bandaríkjadollara virði, jafnvirði 25 - 37 milljóna íslenskra króna. AFP

Meðal annarra muna á uppboðinu verður flauelsjakki úr eigu Michael Jacksons, prýddur skrautsteinum, sem hann klæddist í 65 ára afmæli Elizabethar Taylor, gítar Elvis Presley, gítar Madonnu og handskrifaður texti Eric Claptons að laginu Layla og gítar Pauls McCartneys. Þá verður þar einnig handskrifaður texti Bob Dylans að laginu Mr Tambourine Man.

Á uppboðinu verður einnig flauelsjakki úr eigu Michael Jacksons, prýddur …
Á uppboðinu verður einnig flauelsjakki úr eigu Michael Jacksons, prýddur skrautsteinum, AFP

Að sögn Darrens Julien, sem er forstjóri uppboðshússins, er peysa Cobains eins og heilagur kaleikur þeirra sem dá söngvarann, sem lést árið 1994.

„Kurt skapaði „grunge“ tískuna. Hann klæddist aldrei sérstökum tónleikafötum,“ segir Julien. Hann segir að verðbréfasalar á Wall Street séu sá hópur sem helst kaupir muni sem þessa.

Nærmynd af peysu Cobains.
Nærmynd af peysu Cobains. AFP

Ekki fyrsta uppboð peysunnar

Reyndar er þetta ekki í fyrsta skiptið sem peysa Cobains fer á uppboð. Fyrra skiptið var árið 2015, það var einnig á vegum Julien´s og þá fengust 137.500 bandaríkjadollarar fyrir flíkina, jafnvirði rúmra 17 milljóna íslenskra króna.

Þá hafa aðrir munir úr eigu rokkstjörnunnar dáðu verið seldar fyrir stórfé, m.a. seldist pappadiskur sem Cobain snæddi pítsu af fyrir 22.400 bandaríkjadollara, rúmar 2,8 milljónir íslenskra króna og peysa, sem hann klæddist á einni af síðustu myndunum sem teknar voru af honum, seldist á yfir 75.000 dollara, um 9,5 milljónir íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert