Gull gúrús hinna frægu haldlagt

Kalki Bhagavan
Kalki Bhagavan Ljósmynd/https://commons.wikimedia.org

Níutíu kíló af gulli og demöntum og gríðarháar upphæðir í reiðufé. Þetta var meðal þess sem indverska lögreglan lagði hald á hjá indverska gúrúnum Kalki Bhagavan sem ákærður er fyrir svindl, skattsvik og að hafa komið fé undan á ólöglegan hátt.

Bhagavan, sem er fyrrverandi tryggingasölumaður, fullyrðir að hann sé endurholdgaður hindúaguð. Margar milljónir manna um heim allan fylgja kenningum hans og greiða honum fé fyrir að fá að fylgja honum, en kjarninn í kenningunum er svokallað „oneness“ sem byggir m.a. á því að hlutverk hvers og eins sé einstakt og að líkami og sál sé ein heild.  Frægt fólk á borð við bandaríska tískuhönnuðinn Donnu Karen og Bollywood-stjörnuna Shilpa Shetty er sagt vera meðal fylgjenda hans. 

Þá rekur hann háskóla þar sem kenningar hans eru kenndar og þangað sækja nemendur víða að úr heiminum.

Eignir gúrúsins voru gerðar upptækar eftir viðamikla rannsókn indversku lögreglunnar. Húsleit var gerð á um 40 fasteignum víða um Indland sem eru í eigu hans. Talið er að hann hafi veitt rangar upplýsingar um fjárhag sinn og komið fé undan gegnum skúffufyrirtæki.

Hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagðist myndu halda ótrauður áfram að  breiða út boðskap sinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert