Segja ofbeldismanninn alltaf sleppa

Oleg Sokolov í dómsal í Moskvu í morgun.
Oleg Sokolov í dómsal í Moskvu í morgun. AFP

Rússneskur sagnfræðingur sem hefur játað morð og aflimun á kærustu sinni kom fyrir dómara í Moskvu í morgun. Fjölmargir hafa hvatt til þess að ofbeldi hans gegn kvenkyns nemendum í gegnum tíðina verði rannsakað.

„Ég er miður mín yfir því sem gerðist,“ sagði hinn 63 ára Oleg Solokov í dómsalnum í morgun, þar sem hann hélt um höfuð sér og táraðist. 

So­kolov sagði við yf­ir­heyrslu lög­reglu að hann hefði myrt An­astasiu Yes­hchen­ko, 24 ára, eft­ir heift­ugt rifr­ildi og sagað síðan af henni höfuð, hend­ur og fæt­ur. Sagðist hann hafa ætlað að losa sig við líkið áður en hann hygðist taka eigið líf op­in­ber­lega, klædd­ur sem Napó­leon. 

Gagnrýnendur benda á að yfirvöld taki ofbeldi gegn konum í Rússlandi ekki alvarlega og að mikið ofbeldi viðgangist í háskólum landsins.

Solokov og Yeshchenko höfðu búið saman undanfarin ár en samkvæmt AFP myrti hann hana í síðustu viku.

Greint hefur verið frá því að Solokov hafi í það minnsta beitt annan fyrrverandi nemanda ofbeldi og krefjast aðgerðasinnar þess að eitthvað verði gert í málunum.

„Þetta mál sýnir svart á hvítu hversu vel þeir sem beita ofbeldi gegn konum sleppa við refsingar í samfélaginu,“ sagði Alyona Sadikova, starfsmaður í kvennaathvarfi í Moskvu.

Rúmlega sex þúsund hafa skrifað undir áskorun þar sem yfirvöld eru hvött til að rannsaka skólastjórnendur í Háskólanum í Pétursborg, þar sem Sokolov hefur starfað.

Þar segir að Sokolov hafi komið hræðilega fram við nemendur sína. Solokov hafi beitt annan nemanda ofbeldi árið 2008, hótað að brenna hana með straujárni og drepa hana.

„Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum slapp ofbeldismaðurinn við refsingu,“ segir í áskoruninni. 

Fjölmargir nemendur segja ábyrgðina að einhverju leyti liggja hjá skólayfirvöldum, sem hafi hunsað vandamálið.

„Enginn fylgdist með,“ sagði nemandinn Ivan Pustovoit við AFP. Hann sagði að það væri skólastjórnendum að kenna að ekki hefði tekist að stöðva Solokov „í tæka tíð“.

Rússnesk yfirvöld sögðu morðið „grimmdarverk framið í stundarbrjálæði“ en sögðu að um stakt atvik væri að ræða.

Lögfræðingar og aðgerðasinnar segja að það hefði verið auðvelt að koma í veg fyrir morðið. Ofbeldi gegn konum í Rússlandi væri iðulega hunsað þangað til eitthvað hræðilegt gerðist.

Einnig var talað um eitrað andrúmsloft í háskólum landsins. Kvenkyns nemandi sagði að kennarar reyndu að fá „kynferðislega greiða“ frá myndarlegum ungum konum í námi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert