Velta vöngum yfir fíkniefnapökkum á ströndum landsins

Fólk á gangi eftir Capbreton-ströndinni í Suðvestur-Frakklandi, en þar hefur …
Fólk á gangi eftir Capbreton-ströndinni í Suðvestur-Frakklandi, en þar hefur fíkniefni rekið á land undanfarna daga. AFP

Franska lögreglan rannsakar nú hvað veldur því að „umtalsvert magn“ af kókaíni og öðrum fíkniefnum hefur rekið upp á strendur landsins Atlantshafsmegin undanfarnar vikur.

Guardian greinir frá og segir nýjar pakkningar reka á land daglega.

Er kókaínið sagt vera einstaklega hreint og því hættulegt að sögn saksóknara í borginni Rennes, sem hvetur þá sem koma auga á pakka á ströndinni að snerta þá ekki heldur hafa samstundis samband við lögreglu.

„Grunsamlegir pakkar hafa fundist á ströndum [...] frá Loire-Atlantique og niður til Landes,“ segir í yfirlýsingu saksóknara en um 500 km langan kafla er þar að ræða. Um 14 kg af fíkniefnum fundust þá á Pornic-ströndinni í Loire-Atlantique í gær.

Alls hafa rúmlega 760 kg af fíkniefnum með götuandvirði sem nemur um 60 milljónum evra (rúmum 8 milljörðum kr. ) rekið á land vandlega pökkuð inn í plast.

Kókaín. Mynd úr safni.
Kókaín. Mynd úr safni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Philippe Astruc, saksóknari í Rennes, segir pakkana „mjög líklega“ innihalda kókaín frá Suður-Ameríku. „Þetta er mjög hrein afurð sem má ekki neyta eins og hún er af því að því fylgir mjög mikil hætta á ofneyslu,“ sagði hann í samtali við TV2-sjónvarpsstöðina í Frakklandi. „Þessu fylgir raunveruleg og bein heilsufarshætta.“

Rannsakar lögregla nú hvort bátur fíkniefnasmyglara hafi mögulega lent í óveðri eða vanda og þurft að sleppa farmi sínum.

Franska dagblaðið Sud Ouest segir tvo einstaklinga hafa rekist á tvo 3 kg pakka af kókaíni er þeir voru úti að ganga á Arcachon-ströndinni í Bordeaux á föstudag. Pakkarnir voru merktir „diamante“ eða „brilliante“ og svipaði til pakka sem áður hefur verið greint frá í fréttum að hafi rekið á land í Flórída eftir að fellibylurinn Dorian fór þar yfir í september.

Hefur franska lögreglan nú óskað aðstoðar lögregluyfirvalda í Flórída við rannsókn málsins.

AFP-fréttaveitan hefur eftir heimildamanni sem þekkir vel til rannsóknarinnar að það hafi verið fyrir um mánuði sem pakka með fíkniefnum tók að reka á land á strandsvæði sem náði frá Nantes og allt suður að strandbænum Biarritz.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert