Ferðatöskur í óvæntu ferðalagi

AFP

Hlaðmaður á flugvellinum í Singapúr hefur verið dæmdur í 20 daga fangelsi fyrir að skipta á merkingum á tæplega 300 ferðatöskum þannig að þær enduðu á allt öðrum stöðum í heiminum en þeim var ætlað að gera.

Tay Boon Keh, sem er 66 ára gamall, játaði sök en um merkingar á 286 töskum sem fóru um Changi-flugvöll var að ræða. Flugvöllurinn er sá fjölfarnasti í heimi. Hann segist hafa gert þetta eftir að beiðni hans um aðstoð í starfi var hunsuð. Fyrir dómi kvaðst hann hafa verið reiður og ósáttur við viðbrögð yfirmanna sinna en breytingarnar á merkingunum gerði hann á tímabilinu nóvember 2016 til febrúar 2017.

Töskur sem áttu að fara til Perth, Manila, Frankfurt, London og San Francisco enduðu allt annars staðar í heiminum en um var að ræða töskur farþega Singapore Airlines og dótturfélagsins Silk Air.

Fram kom fyrir dómi að Tay glímdi við alvarlegt þunglyndi á þessum tíma. Saksóknari sagði að ekkert bendi til þess að andleg líðan hans hefði haft áhrif á gjörðir hans og hann hafi vitað fullkomlega hvað hann var að gera. Þetta hefði getað haft verulega alvarlegar afleiðingar í för með sér, jafnvel banvænar í þeim tilvikum sem farþegar voru á lyfjum sem eru lífsnauðsynleg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert