Plastagnir fundust í fiskum og fuglum

Þrjár ólíkar tegundir plastagna fundust í þorskum, sjófuglum og sel …
Þrjár ólíkar tegundir plastagna fundust í þorskum, sjófuglum og sel í nýrri norskri rannsókn. mbl.is/ Rax/Ragnar Axelsson

Þrjár ólíkar tegundir plastagna fundust í þorskum, sjófuglum og sel í nýrri norskri rannsókn. Vísindamennirnir, sem að rannsókninni stóðu, segja að magnið hafi verið lítið, það sé ekki hættulegt fólki og gefi ekki tilefni til að fólk dragi úr fiskneyslu.

Rannsóknin var gerð við eyjuna Syltøy, skammt frá Bergen í Noregi. Plastendurvinnslusjóður Noregs, Norska dýralæknamiðstöðin og Norska rannsóknarmiðstöðin stóðu að henni. Rannsökuð voru 13 fiskar og önnur sjódýr og í ljós kom að plastagnir fundust í átta þeirra.

Marte Haave, einn rannsakenda, segir í samtali við norska ríkisútvarpið, NRK, að það komi ekki á óvart að plastagnir finnist í mönnum og dýrum. „En eftir því sem ég best veit er þetta í fyrsta skiptið sem þetta er rannsakað í villtum fiski. Það hafa verið gerðar aðrar rannsóknir, en þær eiga ekki við í Noregi,“ segir hann. Gera á ítarlegri rannsóknir á þessu sviði.

Fisktegundirnar, sem voru rannsakaðar, voru flyðra, þorskur, toppönd, langvía, otrar og selur. Plastið fannst í vöðvum þeirra, lifur, maga og þörmum. Mesta magnið var í lifur þorsks, en þar var það 3,4 míkrógrömm í hverju grammi lifrarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert