Tróð líkinu í ferðatösku en neitar morði

Skjáskot úr öryggismyndavélum - Grace Millane að kvöldi 1. desember …
Skjáskot úr öryggismyndavélum - Grace Millane að kvöldi 1. desember 2018. Auckland City Police/PA

Maður sem er ákærður fyrir að hafa myrt rúmlega tvítuga breska konu á Nýja-Sjálandi neitar því að hafa myrt hana en játar að hafa komið líkinu fyrir. Hann segist hafa grátið þegar hann hafi uppgötvað að hún væri látin við hlið hans í rúminu og troðið líkinu í ferðatösku.

Þetta kom fram við réttarhöldin yfir manninum sem er 27 ára gamall í Auckland í dag. Hann heldur því fram að Grace Millane, sem var 21 árs, hafi kafnað af slysförum þegar þau höfðu kynmök. 

Við yfirheyrslur hjá lögreglu 8. desember, nokkrum dögum eftir að lík hennar fannst, játaði hann að hafa farið með Millane upp á hótelherbergi sitt eftir Tinder-stefnumót. Hann segir að þau hafi bundist sammælum um harkaleg kynmök að beiðni hennar. Vísaði hún, að hans sögn, til atriðis sem hún hafði séð í kvikmynd. 

Hann játaði að hafa grafið töskuna með líkinu í útjaðri borgarinnar og síðan tekið stóran skammt af þunglyndislyfjum og panadol í þeirri von að taka eigið líf, að því er segir í frétt Guardian í dag.

Ekki leikur vafi á að Millane hafi látist í hótelherberginu og að hann hafi komið líkinu fyrir. Saksóknarar segja að um morð hafi verið að ræða en verjendur mannsins að hún hafi látist af slysförum. Við fyrstu yfirheyrslur hélt hann því fram að þau Millane hafi síðast sést klukkan 20 að kvöldi 1. desember að loknu Tinder-stefnumóti.

Að sögn mannsins fór hann í sturtu eftir kynmökin og hafi verið algjörlega búinn á því. Þegar hann fór aftur upp í rúm hélt hann að Millane væri farin þar sem hann sá hana ekki en ljósin voru slökkt. Það var ekki fyrr en morguninn eftir að hann sá lík við hliðina á sér í rúminu.

„Ég öskraði á hana og ég reyndi að hreyfa hana til að sjá hvort hún væri vakandi [...]. Ég var í áfalli, ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég lyfti henni og reyndi að vekja hana [...] síðan öskraði ég Grace, Grace,“ sagði sá ákærði. Hann sagðist hafa tekið mikið magn af töflum þegar hann hafi áttað sig á að hún væri dáin.  Síðan hafi hann slegið inn númerið hjá Neyðarlínunni en ekki hringt. „Ég var svo hræddur um hvernig þetta liti út [...]. Það var látin manneskja í herberginu mínu. Ég taldi að það liti hræðilega illa út. Ég var gjörsamlega í áfalli yfir því að þetta hefði gerst.“

Hann fór síðan og keypti stóra ferðatösku og hreinlætisefni til þess að hreinsa öll vegsummerki um Millane í burtu. Svo sem blóð í gólfteppi herbergisins. Hann sagðist ekki hafa haft neina reynslu af kyrkingum við kynmök né BDSM-kynlífi en það gengur þvert á vitnisburð fyrri rekkjufélaga. 

Frétt Guardian í heild

Frétt News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert