Trump: Hefur tekið verulega á fjölskyldu mína

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að ásakanir demókrata um meint embættisbrot …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að ásakanir demókrata um meint embættisbrot í starfi hafa tekið verulega á fjölskyldu hans. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að ásakanir demókrata um meint embættisbrot í starfi hafi tekið verulega á fjölskyldu hans. Þetta kom fram í máli forsetans á kosningafundi sem haldinn var í Louisiana-ríki í gær.

„Fyrir mér er orðið embættisbrot afar ljótt orð. Þetta hefur verið virkilega erfitt fyrir fjölskyldu mína,“ sagði Trump, en hann var mættur á kosningafundinn til að styðja við bakið á repúblikananum Eddie Rispone sem er bjóða sig fram gegn demókratanum John Bel Edwards í ríkinu.

Ferlið er „farsi“

Vitnaleiðslur vegna meintra embættisbrota forsetans hófust fyrir tveimur dögum, en Trump hefur líkt ferlinu við „farsa“. Upphaf rannsóknarinnar má rekja til kvörtunar sem barst vegna símtals Trumps við Vlodymyr Zelensky, forseta Úkraínu. Þar er Trump sakaður um að hafa misnotað vald sitt þegar hann er sagður hafa þrýst á Zelensky að rannsaka Hunter Biden, son Joe Biden sem er mögulegur andstæðingur Trumps í forsetakosningunum næsta haust.

Ekkert hefur enn komið fram sem styður kenningar demókrata og segir Trump að allt sé þetta gert til að „skapa glundroða í landinu“. Trump ítrekaði þetta á kosningafundinum í gær. „Við gerðum ekkert rangt,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert