Áfengi, skothvellir og Hvítur kastali

Andrew Adams, Sabrina R. Bell og Bradley B. Jacobs.
Andrew Adams, Sabrina R. Bell og Bradley B. Jacobs. Skjáskot af síðu dómara

Áfengi, skothvellir og Hvítur kastali: Þrír dómarar leystir frá störfum tímabundið vegna slagsmála. (Booze, Gunshots and White Castle: Three Judges Are Suspended for Brawl). Svo hljóðar fyrirsögn í New York Times í dag. 

Dómararnir þrír voru staddir í Indianapolis á ráðstefnu og ætluðu að fá sér nokkra drykki með starfssystkinum kvöldið fyrir ráðstefnuna en drykkirnir urðu fleiri en ráðgert var og um nóttina þegar dómararnir þrír frá Indiana, ætluðu að bregða sér á nektarstað með félögum sínum komu þeir að lokuðum dyrum. Félagar þeirra fóru á hamborgarastaðinn White Castle þar skammt frá en þremenningarnir enduðu í slagsmálum með alvarlegum afleiðingum. Þetta var í apríl en málinu er hvergi nærri lokið því í vikunni voru dómarnir þrír, Andrew Adams, Bradley B. Jacobs og Sabrina R. Bell, leystir frá störfum við hæstarétt Indiana fyrir að hafa með hegðun sinni grafið undan trausti almennings á dómstólnum.

Sagan er rakin í New York Times í dag. Þar er vísað í lögregluskýrslur frá aðfararnótt 30. apríl. Þar er haft eftir Jacobs dómara að hann hafi fengið sér viskí á hótelbarnum eftir að hafa skráð sig inn á hótelið. Bell bættist í hópinn og fékk sér nokkra drykki með félaga sínum. Um klukkan 22 fór Adams á írskan bar þar sem hann fékk sér nokkra bjóra. Um hálf eitt sátu þau öll þrjú að sumbli með fjórum starfssystkinum á bar.

Sendi þeim fingurinn

Um klukkan þrjú ákvað hópurinn, sjö starfsmenn dómstóla, að fara á nektarstað en gripu í tómt því þar var nýbúið að skella í lás. Fjórir úr hópnum fóru inn á hamborgarastaðinn White Castle á meðan dómararnir frá Indiana biðu úti á bílastæði við Hvíta kastalann. Þá bar að tvo menn, Alfredo Vazquez og Brandon Kaiser, sem komu keyrandi inn á bílastæðið og æptu eitthvað til þeirra.

Eitthvað var Bell dómari ósátt við þetta og sendi þeim fingurinn. Tvímenningarnir voru ekki sáttir við líkamstjáningu Bell og snöruðu sér út úr bílnum og upphófst hávaðarifrildi milli þeirra og dómaranna þriggja. Rifrildið stigmagnaðist og endaði með slagsmálum. En þegar Adams sparkaði í bakið á Kaiser varð fjandinn laus. Þegar Adams sagði að nú væri nóg komið dró Kaiser upp  byssu og skaut bæði Adams og Jacobs og þurfti að flytja þá með hraði á sjúkrahús. Skotið hæfði Adams í ristilinn og Jacbos særðist á brjósti. Þeir voru báðir á sjúkrahúsi í talsverðan tíma og þurftu báðir að fara í tvær aðgerðir vegna áverkanna.

Man ekki eftir kvöldinu

Heilbrigðisstarfsmenn mældu vínanda í blóði beggja og reyndist Jacobs vera með 0.13 prómill en Adams 0.157. Bell var ekki send í blóðprufu en síðar sagðist hún ekki muna neitt eftir atvikinu. „Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég drekk og verð kjaftfor. Ég er skapbráð og herská,“ sagði hún við skýrslutöku hjá lögreglu um nóttina. Hún segir að það hefði aldrei hvarflað að sér að sýna þeim fingurinn ef hún hefði gert sér grein fyrir afleiðingunum, það er að þeir væru vopnaðir og þetta myndi enda með slagsmálum. 

Adams, sem er demókrati, var kjörinn dómari við héraðsdómstólinn í Clark-sýslu árið 2014. Hann var ákærður fyrir slagsmálin og dæmdur í eins árs fangelsi. Dómurinn er skilorðsbundinn fyrir utan tvo daga. Honum var jafnframt vikið frá störfum launalaust í tvo mánuði. 

Þrátt fyrir að Jacobs, sem er repúblikani sem hefur starfað við héraðsdóminn í Clark-sýslu í fimm ár, hafi ekki verið ákærður var honum vikið frá störfum í mánuð, einnig launalaust og hið sama á við um Bell. 

Kaiser er ákærður fyrir að hafa skotið dómarana á yfir höfði sér þunga refsingu en réttarhöldin yfir honum hefjast 13. janúar. Vazquez játaði aðild að slagsmálunum og var dæmdur í eins árs fangelsi. Refsingin er að mestu skilorðsbundin. 

Hér er hægt að lesa frétt New York Times í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert